Gera ekki ráð fyrir að snúa aftur til Gatwick

Stjórnendur British Airways íhuga að skera niður framboð á ferðum til og frá London og þar með verður ekki lengur þörf fyrir starfsemina á Gatwick flugvelli.

Mynd: London Gatwick

Þegar WOW air réri lífróður sinn þá seldi félagið afgreiðslutíma sína, svokölluð slott, á Gatwick flugvelli í London. Verðmæti þessara tíma hefur vafalítið fallið í núverandi krísu og mun lækka ennþá meira ef núverandi áætlanir stjórnenda British Airways ganga eftir. Þeir hyggjast nefnilega leggja niður allar ferðir til og frá Gatwick flugvelli en umsvif félagsins þar eru um fimmtungur af starfseminni í Heathrow samkvæmt BBC.

British Airways gaf út í vikunni að til stæði að segja tólf þúsund starfsmönnum upp en það jafngildir nærri þrjátíu prósent af heildar starfsmannafjöldanum. Ekki liggur fyrir hvernig þær uppsagnir dreifast á milli starfsmannahópa en samkvæmt frétt BBC eru líkur á að fjórði hver flugmaður missi vinnuna. Það er mun lægra hlutfall en í nýlegum uppsögnum Icelandair þar sem meira en níu af hverjum tíu flugmönnum var sagt upp. Í heildina sagði Icelandair upp um helmingi starfsmanna.

British Airways hefur undanfarin ár flogið til Íslands og eru þær ferðir frá Heathrow flugvelli. Sá flugvöllur er helsta starfsstöð þessa fornfræga flugfélags og jafnframt fjölfarnasta flughöfn Evrópu. Heathrow er líka helsta samgöngumiðstöðin fyrir Íslandsflug frá Bretlandi.