Gera má ráð fyrir færri flug­mönnum

Icelandair og flugmenn félagsins hafa gert nýjan fimm ára kjarasamning. Þar er kveðið á um aukið vinnuframlag flugmanna. Því má vera ljóst að miðað við óbreytt framboð þá þurfi flugfélagið ekki eins marga í vinnu.

MAX þota Icelandair í Berlín. Mynd: Berlin Airport

Um síðustu helgi var Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair samsteyp­unnar, ekki sáttur við gang mála í kjara­við­ræðum við Flug­freyju­félag Íslands (FFÍ) og Félag íslenskra atvinnuflug­manna (FÍA) líkt og kom fram í bréfi hans til starfs­fólks á laug­ar­dags­kvöld. Bogi greip svo til þess ráðs í byrjun vikunnar að senda flug­mönnum drög að nýjum samn­ingi eftir að stjórn FÍA neitaði að bera tilboðið undir félags­menn. Formaður félags flug­manna svaraði þeirri send­ingu með öðru bréfi á sitt fólk.

Deilan var því allt í hnút en nú hefur tekist samkomulag til næstu fimm ára milli Icelandair og FÍA. Nýr kjara­samn­ingur mun vera er í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnu­framlag og sveigj­an­leika veru­lega samkvæmt því sem segir í tilkynn­ingu.

Gera má ráð fyrir að með aukinni vinnu­skyldu verði ekki þörf fyrir eins marga flug­menn og áður ef miðað er við umsvif félagsins fyrir kóróna­veirukrísuna. Í tilkynn­ingu Icelandair segir þó lítið um efni samn­ingsins en þó er haft eftir forstjór­anum að samn­ing­urinn gefi félaginu aukinn sveigj­an­leika til þróunar á leiða­kerfi Icelandair.

Í því samhengi má horfa til þess að Icelandair hætti flugi til San Francisco í fyrra á sama tíma og evrópsk flug­félög fjölguðu ferð­unum þangað. Einnig fyllti félagið ekki skarð WOW air í flugi til Kana­ríeyja með sama hætti og boðað var. Í ársbyrjun 2018 voru einnig uppi áform um að hefja flug til borga í aust­ur­hluta Evrópu og jafnvel til Indlands líkt og fram kom í máli þáver­andi forstjóra. Nú er að bíða og sjá hvort rykið verði dustað af þessum áætl­unum en fyrst þarf flug­um­ferð í heim­inum auðvitað að komast í lag.