Greiðslustöðvunin hefur engin áhrif Hertz á Íslandi

Stjórnendur bílaleigunnar Hertz hafa óskað eftir greiðslustöðvun í Norður-Ameríku. Rekstur undir heiti Hertz heldur þó áfram með óbreyttu sniði víðast hvar annars staðar í heiminum.

Hertz á erfitt uppdráttar vestanhafs vegna stöðunnar sem nú er uppi vegna Covid-19. Mynd: Hertz

Bílaleigufyrirtækið Hertz sótti um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum og Kanada í lok síðustu viku. Mikill samdráttur í tekjum, sem rekja má til Covid-19, er helsta ástæða þess að svona er komið fyrir einni stærstu bílaleigu Norður-Ameríku samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækið birti á föstudag.

Þessi staða Hertz í heimalandinu hefur engin áhrif á rekstur Hertz á Íslandi að sögn Kristjáns Bergmann Sigurbjörnssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs fyrirtækisins. Hann segir fyrirtækin tvö ekki fjárhaglega tengd þar sem Hertz hér á landi er aðeins leyfishafi vörumerkisins.

„Í raun er allt óbreytt hjá okkur og félagið er og hefur verið í góðum rekstri,“ segir Kristján Bergmann. Hann tekur þó fram að staðan í ferðaþjónustunni sé vissulega þröng nú um stundir vegna heimsfaraldursins.