Gríðarlegt tap og viðskiptaskuldir tvöfaldast

Icelandair líkt og önnur flugfélög varð fyrir miklu höggi vegna útbreiðslu kórónaveirunnar í mars. Meðalfargjaldið hækkaði um átta af hundraði eftir brotthvarf helsta keppinautarins.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Tap Icelandair nam 30,9 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins en fyrir sama tímabil í fyrra var afkoman neikvæð um 6,7 milljarða króna. Einskiptiskostnaður vegna áhrifa kórónaveirunnar í fjórðungnum nam 23,3 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér nú í kvöld í tengslum við birtingu á uppgjöri fyrir fyrsta fjórðung ársins.

Það var í byrjun mars sem vestræn flugfélög, þar á meðal Icelandair, fóru að fækka ferðum hratt í kjölfar þess að landamæri lokuðust og fjöldi ríkja gaf út ferðaviðvaranir vegna heimsfaraldursins. Fram að því hafði rekstur Icelandair batnað og afkoman á fyrstu tveimur mánuðum ársins var betri en í fyrra samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Þá ber að hafa í huga að WOW air var í fullum rekstri fyrstu þrjá mánuðina í fyrra og hækkaði meðalfargjaldið hjá Icelandair til að mynda um átta prósent á fyrsta fjórðungi ársins í ár.

Icelandair hefur líkt og fleiri flugfélög þurft að grípa til fjöldauppsagna og ennþá liggur ekki fyrir hvenær flugsamgöngur milli landa hefjast á nýjan leik. Icelandair ætlar að efna til hlutafjárútboðs í byrjun næsta mánaðar þar sem ætlunin er að safna rúmlega 29 milljörðum króna. Eins hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún væri reiðubúin að kanna möguleikann á því að veita félaginu lánalínu eða ábyrgð lána gangi áform félagsins um söfnun nýs hlutafjár eftir.

Norwegian, sem á í mikilli samkeppni við Icelandair, er komið vel á veg með uppfylla kröfur norska ríkisins fyrir sambærilegri ábyrgð. Hluti af því ferli var að fá kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutafé. Í því samhengi má rifja upp að Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, lánaði Icelandair tíu milljarða króna fyrir ári síðan með veði í tíu Boeing 757 þotum. Vísbendingar eru um að virði þessara flugvéla hafi rýrnað sérstaklega mikið í núverandi krísu því útlit fyrir að mörgum þeirra verði lagt vegna aldurs. Landsbankinn gæti því verið betur settur með hlut í Icelandair í stað veðs í tíu gömlum Boeing þotum.

Í uppgjöri Icelandair kemur fram að vegna aðstæðna þá hafi tekjur af farmiðum, sem ennþá hafa ekki verið nýttir, verið færðar að mestu sem viðskiptaskuldir. Sá liður nemur núna 66 milljörðum króna og hefur hann tvöfaldast frá sama tíma í fyrra, í dollurum talið.