Hafa ekki sett nein skilyrði varðandi kjarasamninga við flugstéttir

Fjárfestar gera kröfur um nýja langtímasamninga við áhafnir Icelandair svo félagið samkeppnishæft segir forstjóri Icelandair Group. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti hluthafinn í fyrirtækinu og þaðan hafa ekki komið nein skilyrði um breytingar.

icelandair 757 a
Mynd: Icelandair

Samingaviðræður Icelandair við flugmenn og flugfreyjur félagsins silgdu í strand í gær. Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafnaði til að mynda beiðni Icelandair um að bera drög að nýjum kjarasamningi undir félagsmenn sína og formaður Flugfreyjufélags Íslands telur tilboð flugfélagsins fela í sér allt að 40 prósenta kjaraskerðingu samkvæmt frétt RÚV.

Í bréfi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, til starfsmanna á laugardagskvöld kom fram að einingarkostnaður vegna launa hjá Icelandair megi ekki vera hærri en hjá sambærilegum alþjóðlegum flugfélögum. „Hvort sem okkur líkar betur eða verr gera fjárfestar kröfur um nýja langtímasamninga við flugstéttir sem gera félagið samkeppnishæft á næstu árum.“ Í bréfinu sagði jafnframt að á hluthafafundi Icelandair, sem haldinn verður 22. maí, verði að liggja fyrir langtímasamkomulag við flugstéttir.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti hluthafinn í samsteypunni og þar hafa ekki verið gerðar kröfur um nýja kjarasamninga. „Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ekki sett nein skilyrði varðandi kjarasamninga Icelandair né annarra félaga sem sjóðurinn er hluthafi í. Að öðru leyti tjáum við okkur ekki um málefni félagsins að svo stöddu,“ segir í svari Þór­hall­s Jóseps­sonar, al­manna­tengsla­full­trúa sjóðsins, við fyrirspurn Túrista.

Stærsti hluthafinn í Icelandair Group er bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management með 12,77 prósent hlut en sjóðurinn hefur síðustu vikur selt bréf í félaginu í smáskömmtum. Sjóðurinn sérhæfir sig í fjárfestingu í flugfélögum og ýmis konar ferðafyrirtækjum og hefur því komið mjög illa út úr kórónaveirukrísunni eins og samantekt Forbes sýndi fram á. Það eru því teikn á lofti um vægi PAR Capital Management í hlutahafahópi Icelandair muni dragast saman eftir útboðið.