Hafa selt 1,2 prósent í Icelandair

Stærsti hluthafinn í Icelandair hefur síðustu vikur selt bréf í félaginu í smáskömmtun. Samtals nemur salan um 66 milljónum hluta.

Mynd: Icelandair

Fjórðu vikuna í röð hefur banda­ríski vogun­ar­sjóð­urinn PAR Capital Mana­gement selt bréf sín í Icelandair Group. Gengi hluta­bréfa í þessu stærsta ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæki landsins hefur fallið um rúmlega áttíu af hundraði síðan PAR Capital varð stærsti hlut­hafinn í apríl í fyrra. Þá var gengið 9,03 en er núna um 1,7.

Hlutur sjóðsins hélst í 13,7 prósentum frá síðasta sumri og fram í lok mars í ár. Núna er hlut­deildin komin niður í 12,5 prósent samkvæmt nýjasta hlut­hafal­ista Icelandair. Samtals hefur PAR Capital selt 66 millj­ónir hluta síðustu vikur og samkvæmt heim­ildum Túrista á markaði þá eru það aðal­lega einstak­lingar sem eru að kaupa bréfin sem PAR Capital býður til kaups. Sjóð­urinn er þrátt fyrir söluna síðustu vikur áfram stærsti hlut­hafinn í Icelandair.

PAR Capital er þó ekki eini af tuttugu stærstu hlut­höf­unum í Icelandair sem hefur selt bréf í félaginu frá því í lok mars. Lífeyr­is­sjóð­urinn Stapi hefur minnkað eign sína um tæplega fimm prósent og Lands­bréf hafa selt tæplega 2 prósent af sínum bréfum.

Aftur á móti hefur fjár­fest­irinn Högni Pétur Sigurðsson bætt við sig rúmlega 18 millj­ónum hluta á þessu tíma­bili og á nú um 2,5 prósent af hlutafé Icelandair.