Hafa uppfyllt kröfur um ríkisaðstoð

Nú þegar búið er að stytta skuldahalann og auka eigið fé félagsins á fær Norwegian loks nærri fjörutíu milljarða króna frá norska ríkinu.

Mynd: Norwegian

Fyrir tveimur mánuðum síðan gaf norska ríkisstjórnin út vilyrði til að lána Norwegian allt þrjá milljarða norskra króna vegna þeirra búsifja sem útbreiðsla kórónaveirunnar hafði valdið. Upphæðin jafngildir um 43 milljörðum íslenskra króna en Norwegian fékk aðeins tíund af summunni í fyrstu atrennu. Skilyrðið sem norsk stjórnvöld settu fyrir bróðurparti lánsins var að flugfélagið myndi semja við kröfuhafa og auka eigið fé.

Strax í framhaldinu tóku við samningaviðræður við eigendur skuldabréfa og flugvélaleigur um að breyta skuldum í eigið fé. Þótti mörgum greinendum í Noregi það óhugsandi að flugvélaeigendur myndu sættast á þess háttar enda óþekkt að svoleiðis fyrirtæki eigi hlut í flugfélagi.

Þetta tókst engu að síður og sátu eldri hluthafar uppi með aðeins 5,2 prósent hlut í Norwegian. Í dag er því flugvélaleigan Aercap Holdings orðinn stærsti hluthafinn í norska flugfélaginu með 15,9 prósent hlut.

Nýju hlutafjárútboði lauk svo í byrjun vikunnar og þar var umframeftirspurnin margföld. Þrátt fyrir að fyrir lægi að þriðjungur af upphæðinni færi í greiðslu á þóknun til banka og verðbréfafyrirtækja vegna nauðasamninganna við kröfuhafa.

Og nú í morgun tilkynntu stjórnendur Norwegian að félagið væri búið að uppfylla þær kröfur sem settar voru fyrir lánveitingunni um miðjan mars. En á fundi með blaðamönnum fyrr í þessum mánuði viðurkenndi fjármálastjóri Norwegian að skilyrði stjórnvalda á sínum tíma hafi verið kveikjan að neyðarsamningunum við kröfuhafa og flugvélaleigur.

Norwegian hefur verið mjög stórtækt í Spánarflugi frá Keflavíkurflugvelli en búast má við að félagið geri hlé á útgerð sinni frá Spáni fram á næsta vor. Stjórnendur þess hafa nefnilega boðað að Norwegian muni aðeins halda úti flugi með sjö flugvélum í Noregi það sem eftir lifir árs og fram til loka mars á næsta ári. Ennþá býður Norwegian þó til sölu flugmiða héðan til bæði Alicante og Barcelona.