Hefja Íslandsflug á ný eftir sjö vikur

Það er útlit fyrir að flugsamgögnur milli Íslands og Riga í Lettlandi verði komnar af stað um mitt sumar.

Frá Riga í Lettlandi. Mynd: Gilly / Unsplash

Flugfélagið Airbaltic hefur síðustu ár haldið úti ferðum hingað frá Riga í Lettlandi. Núverandi áform félagsins gera ráð fyrir að fyrsta ferð sumarsins verði mánudaginn 13. júlí samkvæmt svari við fyrirspurn Túrista.

Þar segir jafnframt að Airbaltic sé í nánu samstarfi við stjórnvöld heima fyrir og geti breytt áætlun sinni með stuttum fyrirvara ef þess er þörf.

Lengi vel gátu farþegar á Keflavíkurflugvelli valið á milli áætlunarferða tveggja flugfélaga til Riga. Nú hefur Wizz Air aftur á móti lagt niður flug sitt hingað frá borginni. Airbaltic er því eitt eftir.

Í farþegum talið er þetta lettneska flugfélag aðeins stærra en Icelandair. Og heimsfaraldurinn sem nú geysar hefur haft sín áhrif á rekstur þess. Af þeim sökum jók lettneska ríkið hlut sinn í félaginu úr áttatíu prósentum í níutíu. Danskur fjárfestir heldur á hinum tíu prósentunum.

Airbaltic hefur líka nýtt krísuna til að endurskipuleggja flugflota sinn. Munar þar mestu um að félagið ætlar að hætta fyrr en áætlað var notkun eldri Boeing og Bombardier þota og í staðinn fljúga eingöngu nýjum Airbus A220 þotum.