Hefja Íslands­flug á ný eftir sjö vikur

Það er útlit fyrir að flugsamgögnur milli Íslands og Riga í Lettlandi verði komnar af stað um mitt sumar.

Frá Riga í Lettlandi. Mynd: Gilly / Unsplash

Flug­fé­lagið Airbaltic hefur síðustu ár haldið úti ferðum hingað frá Riga í Lett­landi. Núver­andi áform félagsins gera ráð fyrir að fyrsta ferð sumarsins verði mánu­daginn 13. júlí samkvæmt svari við fyrir­spurn Túrista.

Þar segir jafn­framt að Airbaltic sé í nánu samstarfi við stjórn­völd heima fyrir og geti breytt áætlun sinni með stuttum fyrir­vara ef þess er þörf.

Lengi vel gátu farþegar á Kefla­vík­ur­flug­velli valið á milli áætl­un­ar­ferða tveggja flug­fé­laga til Riga. Nú hefur Wizz Air aftur á móti lagt niður flug sitt hingað frá borg­inni. Airbaltic er því eitt eftir.

Í farþegum talið er þetta lett­neska flug­félag aðeins stærra en Icelandair. Og heims­far­ald­urinn sem nú geysar hefur haft sín áhrif á rekstur þess. Af þeim sökum jók lett­neska ríkið hlut sinn í félaginu úr áttatíu prósentum í níutíu. Danskur fjár­festir heldur á hinum tíu prósent­unum.

Airbaltic hefur líka nýtt krísuna til að endur­skipu­leggja flug­flota sinn. Munar þar mestu um að félagið ætlar að hætta fyrr en áætlað var notkun eldri Boeing og Bomb­ar­dier þota og í staðinn fljúga eingöngu nýjum Airbus A220 þotum.