Helmingur Íslendinga gistir í Kaupmannahöfn

Það verður í góði lagi fyrir íslenska ferðamenn í Kaupmannahöfn að kæla sig niður í Havnebadet við Íslandsbryggju. En svo þarf að koma sér út úr borginni fyrir háttatíma. Mynd: Visit Copenhagen

Um miðjan júní geta Íslendingar og Danir ferðast óhindrað milli landanna tveggja á ný. Dönsk stjórnvöld ætla þó ekki að heimila útlendingum að gista í Kaupmannahöfn fyrst um sinn. Borgin verður þeim þó opin yfir daginn og þeir geta því fengið sér að drekka og borða.

Takmarkanirnar eru engu að síður verulegar og til marks um það þá hefur um annar hver íslenskur túristi í Danmörku á sumrin gist í Kaupmannahöfn. Þannig keyptu Íslendingar um 19 þúsund gistinætur í Danmörku í júní og júlí í fyrra og þar af voru um 10 þúsund gistingar í höfuðborginni. Þetta má lesa út úr tölum dönsku hagstofunnar.

Þetta er engu að síður aukið ferðafrelsi og því ætlar Icelandair að hefja daglegt flug milli Íslands og Kaupmannahafnar þann 15. júní. Þangað hafa þotur Icelandair flogið allt að fimm sinnum á dag yfir sumarmánuðina.

Auk þess flýgur Icelandair jafnan til Billund á Jótlandi en þær ferðir hafa ekki verið settar á dagskrá á ný.

Ennþá liggur ekki fyrir hvenær SAS flugfélagið tekur upp þráðinn í flugi sínum milli Íslands og Danmerkur samkvæmt svari frá félaginu við fyrirspurn Túrista.