Hlutafjáraukningin í Eldey verður umtalsvert lægri

Í kjölfar samtala við hlutahafa og vegna áhrifa kórónaveirunnar þá verður hlutafjáraukningin í Eldey mun lægri en gert var ráð fyrir.

Skjámynd af vef Eldeyjar

Samkvæmt gögnum sem kynnt voru hluthöfum í fjárfestingasjóðnum Eldey fyrr í þessum mánuði þá stóð til að auka hlutafé sjóðsins um 2,3 milljarða króna áður en félagið yrði sameinað Kynnisferðum. Frá þessu sagði Túristi í morgun og byggði frétt sína á fyrrnefndum gögnum.

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, segir í athugasemd við frétt Túrista að nú sé hins vegar lagt upp með umtalsvert lægri hlutafjáraukningu og hún fari fram fyrir fyrirhugaða sameiningu við Kynnisferðir.

„Hlutafjáraukning að fjárhæð allt að þremur milljörðum króna var samþykkt af hluthöfum á aðalfundi Eldeyjar í apríl 2019 og hafði undirbúningur að stækkun félagsins staðið yfir í um tólf mánuði þegar Covid faraldurinn reið yfir. Í ljósi mikilla áhrifa af lokun landsins á öll félög í eigu Eldeyjar hafa áform um hlutafjáraukningu tekið miklum breytingum síðustu vikurnar, m.a. í kjölfar samtala við hluthafa Eldeyjar nú í maí. Er nú lagt upp með að fjárhæð hlutafjáraukningar verði umtalsvert lægri og fari fram fyrir fyrirhugaða sameiningu við Kynnisferðir. Er hlutafjáraukningunni ætlað að tryggja að félög í eignasafni Eldeyjar muni komast í gegnum þá óvissu sem framundan er næstu 12 til 18 mánuði.  Nánari upplýsingar um áformin verða birtar þegar endanleg útfærsla hlutafjáraukningar liggur fyrir.“

Líkt og fram kom í frétt Túrista í morgun þá gerðu fyrri áætlanir forsvarsfólk Eldeyjar ráð fyrir að aukið hlutafé upp á 2,3 milljarða króna færu m.a. uppgjör vegna lokunar sjóðsins og í í hlutafjáraukningu tveggja af þeim félögum sem Eldey fer með hlut í.