Hluta­fjáraukn­ingin í Eldey verður umtals­vert lægri

Í kjölfar samtala við hlutahafa og vegna áhrifa kórónaveirunnar þá verður hlutafjáraukningin í Eldey mun lægri en gert var ráð fyrir.

Skjámynd af vef Eldeyjar

Samkvæmt gögnum sem kynnt voru hlut­höfum í fjár­fest­inga­sjóðnum Eldey fyrr í þessum mánuði þá stóð til að auka hlutafé sjóðsins um 2,3 millj­arða króna áður en félagið yrði sameinað Kynn­is­ferðum. Frá þessu sagði Túristi í morgun og byggði frétt sína á fyrr­nefndum gögnum.

Hrönn Greips­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Eldeyjar, segir í athuga­semd við frétt Túrista að nú sé hins vegar lagt upp með umtals­vert lægri hluta­fjáraukn­ingu og hún fari fram fyrir fyrir­hugaða samein­ingu við Kynn­is­ferðir.

„Hluta­fjáraukning að fjárhæð allt að þremur millj­örðum króna var samþykkt af hlut­höfum á aðal­fundi Eldeyjar í apríl 2019 og hafði undir­bún­ingur að stækkun félagsins staðið yfir í um tólf mánuði þegar Covid farald­urinn reið yfir. Í ljósi mikilla áhrifa af lokun landsins á öll félög í eigu Eldeyjar hafa áform um hluta­fjáraukn­ingu tekið miklum breyt­ingum síðustu vikurnar, m.a. í kjölfar samtala við hlut­hafa Eldeyjar nú í maí. Er nú lagt upp með að fjárhæð hluta­fjáraukn­ingar verði umtals­vert lægri og fari fram fyrir fyrir­hugaða samein­ingu við Kynn­is­ferðir. Er hluta­fjáraukn­ing­unni ætlað að tryggja að félög í eigna­safni Eldeyjar muni komast í gegnum þá óvissu sem framundan er næstu 12 til 18 mánuði.  Nánari upplýs­ingar um áformin verða birtar þegar endanleg útfærsla hluta­fjáraukn­ingar liggur fyrir.“

Líkt og fram kom í frétt Túrista í morgun þá gerðu fyrri áætlanir forsvars­fólk Eldeyjar ráð fyrir að aukið hlutafé upp á 2,3 millj­arða króna færu m.a. uppgjör vegna lokunar sjóðsins og í í hluta­fjáraukn­ingu tveggja af þeim félögum sem Eldey fer með hlut í.