Hlutafjárútboð samþykkt einróma

Mynd: Icelandair

Hluthafafundur Icelandair seinnipartinn í dag var vel sóttur því fulltrúar 82 prósent hlutafjár mættu. Tillaga stjórnar félagsins, um hlutafjárútboð upp á allt að þrjátíu milljarða króna, var samþykkt einróma samkvæmt frétt RÚV.

Þar segir að fundurinn hafi tekið innan við klukkutíma og endað á ræðu Úlfars Steindórssonar, stjórnarformanns Icelandair samsteypunnar, þar sem hann gagnrýndi harðlega ýmsa sem þykjast hafa vit á rekstri félagsins og láti þær skoðanir í ljós í fjölmiðlum, ýmist undir nafni eða nafnlaust.

Hlutafjárútboð Icelandair hefst svo 29. júní en hálfum mánuði áður er stefnt að því að búið verði að ganga frá samkomulagi við lándadrottna, birgja og stjórnvöld. En á ríkisstjórnarfundi í lok apríl var samþykkt tillaga um að ríkið væri tilbúið til að veita félaginu lánaábyrgð.