Hluthafar fleiri flugfélaga þurfa að taka stóra ákvörðun í dag

Stofnandi og stærsti hluthafi easyJet er ósáttur við núverandi stjórnendur og í dag verða meðeigendur hans að greiða atkvæði um tillögur hans um hallarbyltingu.

easyjet 2017
Mynd: easyJet

Strax í upphafi heimsfaraldursins sem nú geysar fór Stelios Haji-Ioannou, stofnandi easyJet, fram á að stjórnendur félagsins myndu rifta samkomulagi við Airbus um kaup á nýjum þotum. Þessi samningur hefur í áraraðir verið þyrnir í augum stofnandans en hann er stærsti hluthafi flugfélagsins og jafnframt eigandi vörumerkisins.

Stelios, eins og hann kýs að láta kalla sig, telur nefnilega að easyJet hafi stækkað of hratt og hafi ekki not fyrir eins margar þotur og stendur til að kaupa. Rekstur þessa næststærsta lággjaldaflugfélags Evrópu hefur þó gengið vel síðustu ár og stofnandinn umdeildi fengið vænar arðgreiðslur í takt við það.

Hann er samt sem áður ekki sáttur og á hluthafafundi easyJet í dag er komið að því að greiða atkvæði um tillögur hans um einskonar hallarbylltingu í félaginu. Verði vilji hans ofan á þá verða fjórir af æðstu stjórnendum félagsins látnir fara og þar á meðal forstjórinn Johan Lundgren.

Sá hefur náð samkomulagi við Airbus um að seinka afhendingu hluta af þeim þotum sem easyJet á pantaðar. Hann hefur þó sagt að ekki verði komast hjá endurnýjun flugflota félagsins. Um það er Stelios þó ekki sammála eins og áður segir.

Þess má geta að á árunum 2004 og 2006 átti FL Group, þáverandi móðurfélag Icelandair, allt að sautján prósent hlut í easyJet. Og höfðu Íslendingarnir áform um að eignast meirihluta í félaginu en Stelios vildi ekki selja. FL Group seldi svo hlutinn árið 2006 með vænum hagnaði.