Hlut­hafar fleiri flug­fé­laga þurfa að taka stóra ákvörðun í dag

Stofnandi og stærsti hluthafi easyJet er ósáttur við núverandi stjórnendur og í dag verða meðeigendur hans að greiða atkvæði um tillögur hans um hallarbyltingu.

easyjet 2017
Mynd: easyJet

Strax í upphafi heims­far­ald­ursins sem nú geysar fór Stelios Haji-Ioannou, stofn­andi easyJet, fram á að stjórn­endur félagsins myndu rifta samkomu­lagi við Airbus um kaup á nýjum þotum. Þessi samn­ingur hefur í áraraðir verið þyrnir í augum stofn­andans en hann er stærsti hlut­hafi flug­fé­lagsins og jafn­framt eigandi vörumerk­isins.

Stelios, eins og hann kýs að láta kalla sig, telur nefni­lega að easyJet hafi stækkað of hratt og hafi ekki not fyrir eins margar þotur og stendur til að kaupa. Rekstur þessa næst­stærsta lággjalda­flug­fé­lags Evrópu hefur þó gengið vel síðustu ár og stofn­andinn umdeildi fengið vænar arðgreiðslur í takt við það.

Hann er samt sem áður ekki sáttur og á hlut­hafa­fundi easyJet í dag er komið að því að greiða atkvæði um tillögur hans um einskonar hall­ar­byllt­ingu í félaginu. Verði vilji hans ofan á þá verða fjórir af æðstu stjórn­endum félagsins látnir fara og þar á meðal forstjórinn Johan Lund­gren.

Sá hefur náð samkomu­lagi við Airbus um að seinka afhend­ingu hluta af þeim þotum sem easyJet á pant­aðar. Hann hefur þó sagt að ekki verði komast hjá endur­nýjun flug­flota félagsins. Um það er Stelios þó ekki sammála eins og áður segir.

Þess má geta að á árunum 2004 og 2006 átti FL Group, þáver­andi móður­félag Icelandair, allt að sautján prósent hlut í easyJet. Og höfðu Íslend­ing­arnir áform um að eignast meiri­hluta í félaginu en Stelios vildi ekki selja. FL Group seldi svo hlutinn árið 2006 með vænum hagnaði.