Hluthafar greiddu ekki atkvæði með hallarbyltingu

Stofnandi og stærsti hluthafinn í easyJet fékk engan stuðning á hluthafafundi félagsins fyrir helgi. Þar með heldur forstjórinn og hans nánustu samstarfsmenn vinnunni sinni.

Johan Lundgren, forstjóri easyJet, heldur vinnu sinni lengur eftir að tillaga stofnanda flugfélagsins um að reka hann og fleiri stjórnendur var felld. Mynd: easyJet

Ef Stelios Haji-Ioanno, stofnandi easyJet, hefði fengið einhverju ráðið þá er ólíklegt að vöxtur félagsins síðastliðinn áratug hefði verið eins hraður og raun ber vitni. Ástæðan er sú að Stelios, eins og hann er jafnan kallaður, hefur ítrekað mótmælt stækkun flugflota og leiðakerfis félagsins.

Þessi barátta hans gegn auknum umsvifum nær aftur til ársins 2005 og sagði Stelios sig úr stjórn easyJet árið 2010 þrátt fyrir að vera stærsti hluthafinn með 34 prósent hlut.

Ennþá í dag er hlutur Stelios svona stór og á hann líka vörumerki flugfélagsins. Í upphafi kórónaveirukreppunnar hóf hann svo á ný baráttu sína gegn samningi easyJet um kaup á fjölda Airbus. Á sama tíma vildi hann að nokkrir af helstu stjórnendum félagsins yrðu látnir fjúka.

Tillaga Stelios var hins vegar kolfelld á hluthafafundi félagsins fyrir helgi. Allir hluthafar nema Stelios sjálfur greiddu atkvæði með hallarbyltingunni.

Þar með er ljóst að Svíinn Johan Lundgren heldur áfram sem forstjóri easyJet en þetta breska lággjaldaflugfélag hefur lengi verið umsvifamikið í Íslandsflugi.