Hluthafar Norwegian gefa grænt ljós

Síðasta hindrunin fyrir því að Norwegian flugfélagið nái vopnum sínum er úr veginum.

Jacob Schram forstjóri Norwegian. Mynd: Norwegian

Mikill meirihluti hluthafa í Norwegian greiddi atkvæði með tillögum stjórnenda flugfélagsins á sérstökum hluthafafundi nú í morgun. Þetta samþykkir var forsenda fyrir því að félagið ætti sér framtíð líkt og Jacob Scharam, forstjóri flugfélagsins, hafði ítrekað haldið því fram síðustu daga. Nú um helgina höfðu jafnframt skuldabréfaeigendur og flugvélaleigur samþykkt afarkostina sem þeir stóðu frammi fyrir.

Þessir tveir síðarnefndu hópar eignast þar með stærstan hluta flugfélagsins á meðan núverandi hluthafar sitja samanlagt uppi með örfá prósent. Þeirra hlutur gæti þó hækkað á ný ef þeir taka þátt i hlutafjárútboði félagsins sem stefnt er að fljótlega.

Neyðarsamningar við þessa þrjá hópa voru forsenda fyrir því að Norwegian getur fengið hátt í fjörutíu milljarða króna lánaábyrgð frá norska ríkinu.

Norwegian hefur verið stórtækt í flugi milli Íslands og Spánar en ekki er útlit fyrir að félagið haldið þeirri útgerð áfram í ár því áætlun stjórnenda félagsins gerir ráð fyrir að flugreksturinn verði nærri því í dvala fram í mars á næsta ári. Fram að þeim tíma mun félagið aðeins halda úti starfsemi í Noregi.