Hröð loftskipti í þotunum

Hið breska easyJet bætist nú í hóp þeirra flugfélaga sem sett hafa í loftið herferðir til að telja kjark í fólk sem óttast að smitast af kórónaveirunni í flugferðinni.

easyjet 2017
Hér eftir verða farþegar easyJet að vera með grímur allt frá því þeir ganga inn í flugstöðina og þangað til komið er á áfangastað. Mynd: easyJet

Með þriggja til fjögurra mínútna millibili er skipt um allt loft í farþegarýmum flugvéla easyJet. Og síurnar í loftræstikerfi þotanna eru af sömu tegund og þær sem notaðar eru á sjúkrahúsum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju myndbandi frá easyJet.

Þar sést líka hvernig flugvélar þessa breska lággjaldaflugfélags verða þrifnar á milli ferða og óhætt er að segja að ekki á að spara sprittið.

easyJet hefur verið stórtækt í flugi milli Íslands og Bretlands síðustu átta ár. Keflavíkurflugvöllur er þó ekki enn þeirra flugvalla sem easyJet hefur flug til um miðjan júní þegar starfsemi félagsins hefst á ný eftir Covid-19 heimsfaraldurinn.