Icelandair lokar fyrir sölu á sumarflugi til 10 borga

Ekkert verður af sumarflugi Icelandair til Barcelona og ferðunum til Manchester verður áframhaldið í haust. Átta aðrar borgir eru til skoðunar.

portland Zack Spear
Icelandair hefur hætt sölu á ferðum til Portland í sumar. Það er þó ekki útlilokað að þotur félagsins fljúgi þangað í sumar. Mynd: Zack Spear / Unsplash

Ennþá liggur ekki fyrir hvenær flugumferð verður með hefðbundnum hætti á ný. Og vegna óvissunnar hafa flugfélög víða skorið verulega niður sætisframboð næstu mánaða og það hefur Icelandair líka gert.

Þannig hefur félagið fækkað ferðum til fjölda borga og lokað fyrir sölu á farmiðum til tíu áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku í sumar. Um er að ræða Philadelphia og Portland í Bandaríkjunum, kanadísku borgirnar Montreal, Edmonton og Vancouver auk Barcelona, Billund, Bergen, Manchester og London-Gatwick í Evrópu.

Á vef Routesonline segir reyndar að ferðirnar til þessara tíu flugvalla hafi verið felldar niður en Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúa Icelandair, segir í samtali við Túrista að allar þessar flugleiðir séu ennþá til skoðunar að frátöldum Barcelona og Manchester.

Ásdís segir að ætlunin sé að taka upp þráðinn í flug til þeirrar síðarnefndu í október og Barcelona verði hluti af sumaráætlun næsta árs.

Til Manchester ættu farþegar þó áfram að geta flogið frá Keflavíkurflugvelli með easyJet og ennþá virðist Vueling ætla að halda úti áætlunarferðum hingað frá Barcelona.