Icelandair nær fyrst sama fjölda farþega árið 2024

Nú stendur yfir hluthafafundur hjá Icelandair samsteypunni þar sem greiða á atkvæði um tillögu stjórnar um að auka hlutafé félagsins. Tilgangurinn er að ná inn um 30 milljörðum króna.

Mynd: Isavia

Það voru um 4,4 milljónir farþega sem nýttu sér áætlunarferðir Icelandair í fyrra. Í ár gæti fjöldinn farið niður í 800 þúsund og það verður í fyrsta lagi árið 2024 sem félagið mun ná fyrri stærð. Þetta kemur fram í kynningu sem á þessari stundu er lögð fyrir hluthafa Icelandair Group.

Á það er bent í kynningunni að viðspyrna Icelandair eftir hryðjuverkin í New York árið 2001 og eftir fjármálakrísuna 2008 hafi verið góð. Icelandair hefur þó öfugt við mörg önnur flugfélög verið rekið með tapi síðustu tvö ár og segir í kynningunni að það megi rekja til verðstríðs á íslenska markaðnum og ósjálfbæru framboði. Er þá líklega vísað til þess að Icelandair fjölgaði áfangastöðum sínum mjög hratt árið 2017 og 2018.

Hlutafjárútboð Icelandair fer fram í lok júní. Þar er ætlunin að ná inn allt að þrjátíu milljörðum íslenskra króna. Kröfuhöfum býðst að breyta skuldum í eigið fé og eins er gert ráð fyrir að núverandi hluthafar gefi eftir forgagnsrétt á nýju hlutafé.