Icelandair „peninganna virði“

Nýtt heiti yfir stöðu Icelandair á markaði var kynnt á hluthafafundi félagsins í gær.

Glæra úr kynningu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, á hlutahafafundinum í gær.

„Það er stund­um látið að því liggja að það séu tvær teg­und­ir flug­fé­laga sem keppi á markaðnum, ann­ars veg­ar fé­lög sem kalla mætti fullþjón­ustu­fé­lög og hins veg­ar svo­kölluð lággjalda­fé­lög. Staðreynd­in er hins veg­ar sú að það eru fé­lög sem staðsetja sig mitt á milli slíkra fé­laga og Icelanda­ir er eitt þeirra.“

Þetta sagði Björgólf­ur Jó­hanns­son, þáverandi for­stjóri Icelanda­ir Group, á aðal­fundi fé­lags­ins í ársbyrjun 2017. Hann bætti því við að Icelandair tilheyrði hópi flugfélaga sem nefndur væri „hybrid flug­fé­lög“ líkt og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins á sínum tíma.

Í kynningu Boga Nils Bogasonar, núverandi forstjóra Icelandair samsteypunnar, á hluthafafundi í gær var Icelandair aftur á móti kynnt sem „value for money airline“. Flugfélag sem er peninginna virði og staðsett mitt á milli hefðbundinna félaga og lágfargjaldafélaga eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

Stjórnendur Aer Lingus hafa lengi skilgreint sitt félag sem „Value Airline“ en hið írska flugfélag er á margan hátt líkt Icelandair. Bæði fljúga til margra áfangastaða í Norður-Ameríku og eru með hátt hlutfall tengifarþega. Vægi viðskiptaferðalanga er jafnframt lágt í samanburði við keppinauta eins og Lufthansa, British Airways og Delta.

Þess má þó geta að hjá Aer Lingus eru veitingar innifaldar í farmiðaverðinu þegar flogið milli Evrópu og Bandaríkjanna en ekki hjá Icelandair.

Vestanhafs er heitið „Value Airline“ oftar notað um lággjaldaflugfélög og þannig útnefnir hið virta flugrit Aviation Week árlega flugfélög ársins í flokki „Value Airlines“.

Þar hafa borið sigur úr býtum flugfélög sem flokkast sem últra lággjaldaflugfélög, t.d. Spirit, Wizz Air og Volaris. Sigurvegarinn í hittifyrra var Norwegian sem skilgreinir sig skör ofar en þó sem lággjaldaflugfélag.

Þess má geta að í bandarískum ferðablöðum er Icelandair oft skilgreint sem „budget airline“ og hinn nýi merkimiði stjórnenda flugfélagsins er því kannski ekki svo stórt skref niður til lággjaldaflugfélaganna.