Icelandair „pening­anna virði”

Nýtt heiti yfir stöðu Icelandair á markaði var kynnt á hluthafafundi félagsins í gær.

Glæra úr kynningu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, á hlutahafafundinum í gær.

„Það er stund­um látið að því liggja að það séu tvær teg­und­ir flug­fé­laga sem keppi á mark­aðnum, ann­ars veg­ar fé­lög sem kalla mætti fullþjón­ustu­fé­lög og hins veg­ar svo­kölluð lággjalda­fé­lög. Staðreynd­in er hins veg­ar sú að það eru fé­lög sem stað­setja sig mitt á milli slíkra fé­laga og Icelanda­ir er eitt þeirra.“

Þetta sagði Björgólf­ur Jó­hanns­son, þáver­andi for­stjóri Icelanda­ir Group, á aðal­fundi fé­lags­ins í ársbyrjun 2017. Hann bætti því við að Icelandair tilheyrði hópi flug­fé­laga sem nefndur væri „hybrid flug­fé­lög“ líkt og fram kom í umfjöllun Morg­un­blaðsins á sínum tíma.

Í kynn­ingu Boga Nils Boga­sonar, núver­andi forstjóra Icelandair samsteyp­unnar, á hlut­hafa­fundi í gær var Icelandair aftur á móti kynnt sem „value for money airline”. Flug­félag sem er pening­inna virði og stað­sett á markaði mitt á milli hefð­bund­inni félaga og svo lágfar­gjalda­fé­laga eins og sjá má á mynd­inni hér fyrir ofan.

Stjórn­endur Aer Lingus hafa lengi skil­greint sitt félag sem „Value Airline” en hið írska flug­félag er á margan hátt líkt Icelandair. Bæði fljúga til margra áfanga­staða í Norður-Ameríku og eru með hátt hlut­fall tengifar­þega. Vægi viðskipta­ferða­langa er jafn­framt lágt í saman­burði við keppi­nauta eins og Luft­hansa, British Airways og Delta.

Þess má þó geta að hjá Aer Lingus eru veit­ingar innifaldar í farmiða­verðinu þegar flogið milli Evrópu og Banda­ríkj­anna en ekki hjá Icelandair.

Vest­an­hafs er heitið „Value Airline” oftar notað um lággjalda­flug­félög og þannig útnefnir hið virta flugrit Aviation Week árlega flug­félög ársins í flokki „Value Airlines”.

Þar hafa borið sigur úr býtum flug­félög sem flokkast sem últra lággjalda­flug­félög, t.d. Spirit, Wizz Air og Volaris. Sigur­veg­arinn í hittifyrra var Norwegian sem skil­greinir sig skör ofar en þó sem lággjalda­flug­félag.

Þess má geta að í banda­rískum ferða­blöðum er Icelandair oft skil­greint sem „budget airline” og hinn nýi merkimiði stjórn­enda flug­fé­lagsins er því kannski ekki svo stórt skref niður til lággjalda­flug­fé­lag­anna.