Indigo Partners gætu haslað sér völl í Ástr­alíu

Bill Franke og hans fólk skoðaði kaup á WOW air á sínum tíma. Nú horfa þau til Ástralíu þar sem næst stærsta flugfélag landsins eru til sölu.

Virgin Austr­alia lenti nærri samstundis í alvar­legum vanda þegar útbreiðsla kóróna­veirunnar varð til þess að flug­sam­göngur stöðv­uðust á heimsvísu. Félagið hefur nefni­lega verið í ströggli lengi og ekki skilað hagnaði í mörg ár.

Ástr­alskir ráða­menn urðu ekki við beiðni stjórn­enda flug­fé­lagsins um ríkis­að­stoð í mars og fór félagið í greiðslu­stöðvun í byrjun síðasta mánaðar. Fljót­lega kom þó í ljóst að tölu­verður áhugi var á þrota­búinu og nú hafa fjórir kaup­enda­hópar fengið tæki­færi til að skila inn bind­andi tilboði í rekst­urinn.

Þar á meðal er banda­ríska fjár­fest­inga­fé­lagið Indigo Partners, þeir sömu og skoðuðu lengi kaup á WOW air. Indigo Partners eru stór­tækir í flugrekstri víða um heim og einbeita sér að svokölluðu últra lággjalda­flug­fé­lögum. Virgin Austr­alia flokkast ekki sem slíkt en stór hluti af umsvifum þess snýr að innan­lands­flugi.

Þess má geta að Banda­ríkja­mað­urinn John F. Thomas, sem tók nýverið sæti í stjórn Icelandair Group, var um tíma annar æðsti yfir­maður Virgin Austr­alia. Hann var svo látinn taka poka sinn árið 2017 eftir tæpt eitt ár í starfi.

Núver­andi eigendur Virgin Austr­alia eru meðal annars flug­fé­lögin Etihad og Singa­pore Airlines. Virgin samsteypa auðkýf­ingsins Richard Branson fer svo með tíund í félaginu. Virgin Austr­alia er ekki eina flug­fé­lagið hans sem er í miklu vanda því framtíð Virgin Atlantic er tvísýn.