Íslandsflug ekki hluti af upphafsskrefum Lufthansa

Nú ætla stjórnendur þýska flugfélagsins að setja í gang á ný en félagið hefur lengi boðið upp á reglulegar ferðir til Keflavíkurflugvallar frá Frankfurt og Munchen.

Frá flugvellinum í Frankfurt en þaðan býður Lufthansa upp á ferðir til Íslands allt árið um kring. Mynd: Lufthansa

Framboð á flugferðum með Lufthansa eykst töluvert í byrjun næsta mánaðar þegar áttatíu þotur félagsins hefja sig til flugs á ný eftir að hafa verið á jörðu niðri frá því að heimsfaraldurinn braust út. Til að byrja með einbeitir þýska félagið sér að ferðum innan Þýskalands og til nágrannalandanna. Einnig munu þotur félagsins halda til tuttugu áfangastaða í öðrum heimsálfum.

Í tilkynningu frá Lufthansa eru taldir upp þær evrópsku borgir sem byrjað verður að fljúga til júní og Reykjavík er þar ekki á lista. Aftur á móti ætlar Lufthansa að taka upp þráðinn í flugi til Prag, Billund, Brussel, Vínarborgar, Zurich, Nice, Manchester, Búdapest, Dublin, Riga, Búkarest, Kænugarðs og Palma á Mallorca.

Lufthansa hefur um langt árabil flogið til Íslands frá bæði Frankfurt og Munchen og það er ekki útilokað að Íslandsflug komist fljótlega á dagskrá á ný hjá þýska félaginu því von er á frekari viðbótum við sumaráætlunina fljótlega. En eins og áður hefur komið fram þá hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að opna landið fyrir ferðamönnum um miðjan næsta mánuð.

Innan Lufthansa samsteypunnar eru líka flugfélögin Eurowings og Austrian sem bæði fljúga hingað á sumrin. Flugrekstur þess fyrrnefnda mun á næstunni einskorðast við flug frá Þýskalandi til áfangataða við Miðjarðarhafið. Þotur Austrian halda aftur á  móti kyrru fyrir í Austurríki aðeins lengur en gert er ráð fyrir að þær fari á loft í annarri viku júní. Ekki liggur fyrir hvort Ísland verði þá einn þeirra áfangastaða sem haldið verður til.