Íslands­flug ekki hluti af upphafs­skrefum Luft­hansa

Nú ætla stjórnendur þýska flugfélagsins að setja í gang á ný en félagið hefur lengi boðið upp á reglulegar ferðir til Keflavíkurflugvallar frá Frankfurt og Munchen.

Frá flugvellinum í Frankfurt en þaðan býður Lufthansa upp á ferðir til Íslands allt árið um kring. Mynd: Lufthansa

Framboð á flug­ferðum með Luft­hansa eykst tölu­vert í byrjun næsta mánaðar þegar áttatíu þotur félagsins hefja sig til flugs á ný eftir að hafa verið á jörðu niðri frá því að heims­far­ald­urinn braust út. Til að byrja með einbeitir þýska félagið sér að ferðum innan Þýska­lands og til nágranna­land­anna. Einnig munu þotur félagsins halda til tuttugu áfanga­staða í öðrum heims­álfum.

Í tilkynn­ingu frá Luft­hansa eru taldir upp þær evrópsku borgir sem byrjað verður að fljúga til júní og Reykjavík er þar ekki á lista. Aftur á móti ætlar Luft­hansa að taka upp þráðinn í flugi til Prag, Billund, Brussel, Vínar­borgar, Zurich, Nice, Manchester, Búdapest, Dublin, Riga, Búkarest, Kænu­garðs og Palma á Mall­orca.

Luft­hansa hefur um langt árabil flogið til Íslands frá bæði Frankfurt og Munchen og það er ekki útilokað að Íslands­flug komist fljót­lega á dagskrá á ný hjá þýska félaginu því von er á frekari viðbótum við sumaráætl­unina fljót­lega. En eins og áður hefur komið fram þá hafa íslensk stjórn­völd ákveðið að opna landið fyrir ferða­mönnum um miðjan næsta mánuð.

Innan Luft­hansa samsteyp­unnar eru líka flug­fé­lögin Eurow­ings og Austrian sem bæði fljúga hingað á sumrin. Flugrekstur þess fyrr­nefnda mun á næst­unni einskorðast við flug frá Þýskalandi til áfangataða við Miðjarð­ar­hafið. Þotur Austrian halda aftur á  móti kyrru fyrir í Aust­ur­ríki aðeins lengur en gert er ráð fyrir að þær fari á loft í annarri viku júní. Ekki liggur fyrir hvort Ísland verði þá einn þeirra áfanga­staða sem haldið verður til.