Kjarasamningur undirritaður milli Icelandair og Flugvirkjafélags Íslands

Ein af þremur flugstéttum hefur samið við flugfélagið til lengri tíma.

Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

„Hvort sem okkur líkar betur eða verr gera fjárfestar kröfur um nýja langtímasamninga við flugstéttir sem gera félagið samkeppnishæft á næstu árum,“ skrifaði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í bréfi til starfsmanna fyrirtækisins á laugardagskvöld. Hann bætti við að viðræður við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Flugfreyjufélag Íslands mættu vera á betri stað.

Fulltrúar flugvirkja, þriðju flugstéttarinnar, undirrituðu aftur á móti í gær nýjan kjarasamning við Icelandair sem gildir fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 31. desember 2025. „Samningurinn er í samræmi við þau markmið sem samningsaðilar lögðu upp með sem í senn styrkir samkeppnishæfni félagsins og stendur vörð um starfskjör og gott starfsumhverfi,“ eins og segir í tilkynningu.

„Ég tel að samninganefnd Flugvirkjafélags Íslands hafi mætt þeim þörfum og markmiðum sem Icelandair telur að þurfi að uppfylla í því ástandi sem ríkir. Undirritun á samningi er lausn fyrir báða aðila í þeirri stöðu. Við lögðum áherslu á að kjarasamningsbundin gildi flugvirkja yrðu varðveitt þannig að sátt væri um stöðu mála,“ er haft eftir Guðmundi Úlfari Jónssyni, formanni Flugvirkjafélags Íslands, í tilkynningu.