Lengri bið eftir bata á hótelum í Reykjavík

Því er almennt spáð að ferðaþjónustufyrirtæki hér heima og í útlöndum verði fyrst að treysta á heimamarkaðinn og svo nágrannalöndin. Ferðalög milli heimsálfa muni áfram vera takmörkuð. Ef þessi spá gengur eftir þá kemur Reykjavík ekki vel út samkvæmt nýjum samanburði milli Evrópuborga.

Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Þegar fólk kemst á ferðina á ný þá mun það fyrst horfa til þess að ferðast innanlands og svo til nágrannaríkjanna. Aftur á móti munu margir bíða með ferðalög til annarra heimsálfa. Þetta er nokkuð almenn framtíðarsýn innan ferðaþjónustunnar og endurspeglast til að mynda í yfirlýsingum forstjóra flugfélaga þessa dagana og forsvarsfólks ferðamálaráða.

Þetta ferðamynstur er líka forsenda nýrrar úttektar Oxford Economics þar sem lagt er mat á hversu vel hótelmarkaðurinn í hinum ýmsu borgum Evrópu stendur þegar ferðatakmarkanir verða loks felldar úr gildi. Borgir þar sem vægi innlendra hótelgesta er hátt koma þá best út úr samanburðinum og líka ef margir túristar koma frá nálægum löndum. Aftur á móti vinnur það gegn áfangastöðum ef ferðamennirnir koma að miklu leyti frá öðrum heimsálfum.

Hér á landi er hlutfall ferðamanna frá Norður-Ameríku einmitt mjög hátt og heimamarkaðurinn lítill. Þar með flokkast Reykjavík sem óstöðugur hótelmarkaður í úttekt Oxford Economics. Það gera líka borgir eins og Flórens, Feneyjar, Istanbúl, Seville og Zurich. Aftur á móti eru til dæmis Stokkhólmur og Ósló alveg á hinum endanum þar sem hlutfall heimamanna á hótelum þar er mjög hátt.

Þegar horft er til gistináttatalna Hagstofunnar þá sést að Íslendingar sjálfir stóðu undir sjö af hverjum hundrað gistinóttum á reykvískum hótelum í fyrra. Á hótelum í Stokkhólmi eru Svíar hins vegar í nærri tveimur af hverjum þremur herbergjum ef svo má segja. Hlutfall evrópskra gesta er líka mun hærra í sænsku höfuðborginni en þeirri íslensku eins og má súluritinu hér fyrir neðan.

Stokkhólmur kemur því einna best út úr samanburði Oxford Economics en Reykjavík mun verr miðað við þær forsendur að ferðalög muni til að byrja með mest vera innanlands og milli nágrannaríkja. Það gæti þó vegið upp á móti þessari niðurstöðu að það tekur íbúa á austurströnd Norður-Ameríku mun skemmri tíma að fljúga hingað en til meginlands Evrópu.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.