Lítil von að samn­ingar náist milli Icelandair og flug­freyja

Mynd: Icelandair

Að mati stjórn­enda Icelandair stam­steyp­unnar er ólík­legt að kjara­við­ræður við Flug­freyju­félag Íslands skili árangri. Þetta kemur fram í tilkynn­ingu frá fyrir­tækinu. Þar segir að flug­freyjur hafi hafnað loka­til­boði um nýjan kjara­samning.

„Það eru mikil vonbrigði að Flug­freyju­félag Íslands hafi hafnað tilboði okkar. Þetta var okkar loka­tilboð og byggir það á sama grunni og þeir samn­ingar sem gerðir hafa verið við stétt­ar­félög flug­manna og flug­virkja. Í tilboðinu eru fólgnar grunn­launa­hækk­anir, aukinn sveigj­an­leiki varð­andi vinnu­tíma en á sama tíma tryggir það samkeppn­is­hæfni og sveigj­an­leika Icelandair. Því miður verður ekki lengra komist í viðræðum við Flug­freyju­félag Íslands og þurfum við nú að skoða aðrar leiðir. Við ætlum okkur að koma félaginu í gegnum þær krefj­andi aðstæður sem nú ríkja og styrkja rekstur þess til fram­tíðar,” segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynn­ingu.

Þar kemur jafn­framt fram að samkvæmt mati forsvars­fólks Icelandair séu tillögur viðsemj­anda þeirra þess eðlis að samn­ing­urinn fari í kjöl­farið langt frá þeim mark­miðum sem sett voru í kjara­við­ræðum félagsins við stétt­ar­félög flug­stétta, en Icelandair hefur þegar gert lang­tíma­samn­inga við Félag íslenskra atvinnuflug­manna (FÍA) og Flug­virkja­félag Íslands (FVFÍ).

„Þeir samn­ingar kveða í megin­at­riðum á um sveigj­an­leika og viðbót við vinnu­skyldu og styðja þar með við markmið Icelandair Group um að auka samkeppn­is­hæfni félagsins á alþjóða­markaði en á sama tíma verja ráðstöf­un­ar­tekjur starfs­fólks og tryggja því gott starfs­um­hverfi,” segir í tilkynn­ingu.