Lítil von að samningar náist milli Icelandair og flugfreyja

Mynd: Icelandair

Að mati stjórnenda Icelandair stamsteypunnar er ólíklegt að kjaraviðræður við Flugfreyjufélag Íslands skili árangri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að flugfreyjur hafi hafnað lokatilboði um nýjan kjarasamning.

„Það eru mikil vonbrigði að Flugfreyjufélag Íslands hafi hafnað tilboði okkar. Þetta var okkar lokatilboð og byggir það á sama grunni og þeir samningar sem gerðir hafa verið við stéttarfélög flugmanna og flugvirkja. Í tilboðinu eru fólgnar grunnlaunahækkanir, aukinn sveigjanleiki varðandi vinnutíma en á sama tíma tryggir það samkeppnishæfni og sveigjanleika Icelandair. Því miður verður ekki lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og þurfum við nú að skoða aðrar leiðir. Við ætlum okkur að koma félaginu í gegnum þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja og styrkja rekstur þess til framtíðar,” segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að samkvæmt mati forsvarsfólks Icelandair séu tillögur viðsemjanda þeirra þess eðlis að samningurinn fari í kjölfarið langt frá þeim markmiðum sem sett voru í kjaraviðræðum félagsins við stéttarfélög flugstétta, en Icelandair hefur þegar gert langtímasamninga við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugvirkjafélag Íslands (FVFÍ).

„Þeir samningar kveða í meginatriðum á um sveigjanleika og viðbót við vinnuskyldu og styðja þar með við markmið Icelandair Group um að auka samkeppnishæfni félagsins á alþjóðamarkaði en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og tryggja því gott starfsumhverfi,“ segir í tilkynningu.