Lofa heiðarlegum fargjöldum

Heimasíða WOW air er að taka á sig mynd og þar er nú að finna nánari upplýsingar um starfsemina.

Ný heimasíða WOW air. Skjámynd af heimasíðu WOW air

Hjá hinu upprunalega WOW air stærðu stjórnendur sig af háum hliðartekjum á hvern farþega. Var þá horft til þess hve margir borguðu aukalega fyrir farangur og val á sætum um borð. Eins komust farþegar ekki hjá því að greiða bókunargjald upp á 999 krónur. Nýir eigendur vörumerkis WOW hafa ítrekað að þessi háttur verði ekki hafður á þegar WOW hefur sig til flugs á ný.

Á nýuppfærði heimasíðu félagsins er þessi stefna útskýrð nánar. Þar segir að í heimi WOW air (WOW world) þurfi farþegar ekki að hafa áhyggjur af yfirvigt eða farangurstakmörkunum. Í þeim heimi geti fólk líka tekið frá þau sæti um borð sem það vill án aukgreiðslu og matreiðslumeistarinn Roger Wiles mun svo tryggja góða næringu í fluginu.

Þetta eru svokölluð heiðarleg fargjöld að hætti WOW air (Honest fare). Þeim fylgir líka frítt netsamband í háloftunum og afþreying. Frasarnir WOW World og Honest Fares eru merktir sem skráð vörumerki eða ™ í texta heimasíðunnar.

Engar upplýsingar eru á vefsíðu WOW um hvert flugfélagið mun fljúga en ráðnir hafa verið til starfa framkvæmdastjórar á Ítalíu og Rússlandi. Auk þess er Magnús Magnússon nýr yfirmaður vöruflutningasvið félagsins.

Einnig ætlar félagið sér að hasla sér völl í Afríku samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðunni.