Lýsti yfir vanhæfi í stjórn vegna umræðu um samruna við Kynn­is­ferðir

Forstjóri Isavia situr í stjórn Eldeyjar en til stendur að sameina þann sjóð Kynnisferðum. Isavia og Kynnisferðir deila á sama tíma fyrir dómstólum.

Fjár­fest­inga­sjóð­urinn Eldey hefur síðustu ár keypt hluti í fyrir­tækjum sem sérhæfa sig í afþrey­ingu fyrir ferða­fólk. Nú í byrjun mánaðar var svo tilkynnt að unnið væri að því að sameina fjár­fest­inga­sjóðinn Eldey og Kynn­is­ferðir, eitt stærsta ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæki landsins.

Í stjórn Eldeyjar situr Svein­björn Indriðason, forstjóri Isavia, en Kynn­is­ferðir stefndu Isavia í fyrra vegna meintra vanefnda í kjölfar útboðs á aðstöðu fyrir sæta­ferðir frá Leifs­stöð til höfuð­borg­ar­innar.

Svein­björn segist, í svari til Túrista, strax hafa lýst yfir vanhæfi varð­andi alla umfjöllun um Kynn­is­ferðir í stjórn Eldeyjar og því ekki hafa komið að því verk­efni sem slíku eða ákvarð­ana­tökum. „Ég mun að sjálf­sögðu ekki taka sæti í stjórn sameinaðs félags ef af samein­ingu verður,” segir Svein­björn.

Svein­björn hefur setið í stjórn Eldeyjar frá stofnun félagsins árið 2015 en hann situr ekki í fleiri stjórnum utan Isavia í dag.

Í fyrr­nefndri deilu Kynn­is­ferða og Isavia fara stjórn­endur þess fyrr­nefnda fram á að sölu­þóknun Isavia af seldum miðum í Flugrútuna verði lækkuð um helming. Hún hefur verið 41,2 prósent frá því í mars árið 2018 og þá í takt við tilboð Kynn­is­ferða í fyrr­nefndu útboði.

Fyrsta árið greiddu Kynn­is­ferðir 413 millj­ónir króna í sölu­þóknun til Isavia en árið áður nam upphæðin rétt um 80 millj­ónum króna samkvæmt því sem fram kemur í málskjölum.

Líkt og Túristi greindi frá í fyrradag þá nam tap Eldeyjar rúmum millj­arði í fyrra. Árið á undan var tapið 355 millj­ónir.

Á hluta­hafa­fundi á þriðjudag var kallað eftir viðbótar hlutafé í sjóðinn upp á hálfan milljarð en íslenskir lífeyr­is­sjóðir fara með 70 prósent hlut í Eldey.