Meðeigendum Eldeyjar boðinn hlutur í sameiginlegu félagi

Undirritað hefur verið samkomulag um sameiningu Kynnisferða og félaga sem eru í eignasafni Eldeyjar. Með sameiningunni verður til eitt stærsta félag landsins sem sinnir afþreyingartengdri ferðaþjónustu.

flugrutan
Mynd: Kynnisferðir

Kynnisferðir eru eitt stærsta ferðaþjónstufyrirtæki landsins og rekur meðal annars Flugrútuna sem boðið hefur upp á sætaferðir milli Leifsstöðvar og höfuðborgarinnar um langt árabil. Stjórnendur Kynnisferða og fjárfestingasjóðsins Eldeyjar vinna nú að sameingingu fyrirtækjanna og Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Eldey hefur fjárfest í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og er meðal annars hluthafi í Norðursiglingu, Arcanum fjallaleiðsögumönnum, Dive.is og Logakór. Aðspurður segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, að samhliða sameiningunni verði meðeigendum Eldeyjar boðið að eignast hlut í sameinuðu félagi og þannig stemmt að því að flest félögin verði alfarið í eigu þess félags. „Þannig ætlum við að ná hámarks samlegð.“

Björn segir þetta þó ekki eiga við Íslenskar heilsulindir en reiknað er með að eignarhlutur Eldeyjar í því fyrirtæki renni inn sameinaða félagið. Þess má geta að Eldey átti 67 prósent hlut í Saga Travel en það fyrirtæki varð gjaldþrota nú í apríl.

Samkvæmt heimasíðu Eldeyjar þá fara íslenskir lífeyrissjóðir með rúmlega 70 prósent hlut í fjárfestingasjóðnum en formaður stjórnar Eldeyjar er Hildur Árnadóttir sem jafnframt er formaður stjórnar Íslandsstofu. Aðrir stjórnarmenn eru Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, Arnar Þórisson, stjórnarformaður í Kilroy, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og Árni Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Air Iceland Connect og nú framkvæmdastjóri Iceland Travel.