Mega halda áfram vinnu við Íslandsherferðina

Kærunefnd útboðsmála telur ekki vankanta á útboði Ríkiskaupa á markaðsherferð Íslandsstofu.

Island seljalandsfoss taylor leopold
Mynd: Taylor Leopold / Unsplash

Það bárust fimmtán umsóknir í framkvæmd á markaðsátaki Íslandsstofu sem ætlað er að styðja við stöðu Íslands sem áfangastaðar þegar ferðalög hefjast á ný.

Breska auglýsingastofan M&C Saatchi hlaut flest stig þrettán manna dómnefndar í útboðinu eða 87,17 stig af hundrað mögulegum. Í öðru sæti var íslenska auglýsingastofan Pipar/TBWA með 86,35 stig.

Forsvarsfólk Pipar/TBWA kærði niðurstöður útboðsins á þeim grundvelli að skila hafi átt tilboðum með virðisaukaskatti en þar sem M&C Saatchi er erlent fyrirtæki, sem er ekki virðisaukaskattskylt á Íslandi, þá hafi það raskað jafnræði bjóðenda. Einnig benda stjórnendur Pipar/TBWA á að breska fjármálaeftirlitið kanni nú möguleg bókhaldsbrot M&C Saatchi.

Auk þess er vísað til þess í kærunni að einn þeirra þrettán sem sat í valnefndinni gaf Pipar/TBWA aðeins þrjú stig í öllum matsflokkum sem hafi verið algjörlega á skjön við niðurstöður annarra nefndarmanna.

Kærunefnd útboðsmála hefur nú fjallað um málið og í nýjum úrskurði nefndarinnar segir að röksemdir kæranda ekki geta stutt við að stöðvun útboðsins verði viðhaldið. Þar með verði stöðvuninni aflétt sem þýðir þá að M&C Saatchi, ásamt íslensku auglýsingastofunni Peel, getur haldið vinnu sinni áfram við markaðsátak Íslandsstofu.

Íslensk stjórnvöld ætla að setja 1,5 milljarð króna í þessa herferð og þar af fara um þrjú hundruð milljónir í vinnslu á markaðsefninu sjálfu. Stærsti hluti fjármagnsins nýtist því í kaup á auglýsingabirtingum á samfélagsmiðlum og erlendum fjölmiðlum.