Miklu meiri árstíðasveifla hjá Icelandair

Sætaframboð hjá Icelandair er tvöfalt meira á hánnatíma en svo mikill er munurinn ekki hjá sambærilegum evrópskum flugfélögum.

Mynd: Brent Cox / Unsplash

Umsvif evrópsku lággjaldaflugfélaganna Ryanair og easyJet takmarkast að langmestu við ferðir milli evrópskra áfangastaða. Að jafnaði fljúga flugvélar félaganna því aðeins rúma þúsund kílómetra í hverri ferð á meðan meðal flugleggurinn hjá Icelandair hefur verið í kringum 2500 kílómetrar síðustu ár.

Þessi miklu munur skrifast ekki bara á legu landsins heldur líka þá staðreynd að starfsemi Icelandair byggir að miklu leyti á að flytja farþega milli Evrópu og Norður-Ameríku. Til marks um það er um helmingur farþega félagsins svokallaðir tengifarþegar á meðan fyrrnefnd lággjaldaflugfélög bjóða ekki upp á tengiflug. Þau bera því ekki ábyrgð á farþegum ef til að mynda seinkun á fyrri flugferð verður þess valdandi að farþeginn missir af tengiflugi.

Segja má að flugfélögin Aer Lingus, SAS og Finnair séu því mun líkari Icelandair enda flytja þau líka mikið af farþegum á milli heimsálfa og hlutfall tengifarþega er líka hátt. Það er aftur á móti mikill munur á félögunum fjórum þegar kemur að árstíðasveiflum eins og sjá má í samanburði Túrista á framboðnum sætiskílómetrum (ASK) félaganna hér fyrir neðan.

Hjá Icelandair er framboðið þannig ríflega tvöfalt meira (102 til 112%) á þriðja ársfjórðungi en á þeim fyrsta síðustu þrjú ár á meðan munurinn hjá Aer Lingus hefur sveiflast milli 54 og 72 prósent. Hjá Finnair og SAS er munurinn ennþá minni eða rétt um fimmtungur en hafa ber í huga að þessi tvö norrænu flugfélög eru stórtæk í innanlandsflugi og innan Skandinavíu sem gæti jafnað árstíðasveiflur að einhverju leyti. Á sama hátt er Aer Lingus með tíðar ferðir yfir sundið til Bretlands.

Þessir þrír keppinautar Icelandair hafa allir skilað hagnaði síðustu fimm ár á meðan Icelandair var rekið með töluverðu tapi bæði í fyrra og hittifyrra.

Þess má geta að þegar horft er til árstíðasveiflna í ferðaþjónustu þá var minni munur á fjölda ferðamanna hér á landi milli fyrsta og þriðja ársfjórðungi í samanburði við Írland í fyrra. Hylli eyjanna tveggja meðal erlendra ferðamanna skýra því ólíklega muninn á þessum mikla áherslumun hjá Icelandair milli ársfjórðunga.