Ná samkomulagi við eigendur flugflotans

Töluvert meira af kröfum flugvélaleiga og fjármögnunarfyrirtækja á hendur Norwegian verður breytt í hlutafé en reiknað hafði verið með. Nú virðist framtíð félagsins í höndum hluthafanna en þeir funda nú í morgunsárið.

Mynd: Norwegian

Greinendur og álitsgjafar í Skandinvíu hafa verið svartsýnir á að eigendur bróðurparts þeirra þota sem Norwegian flýgur myndu samþykkja að breyta hluta af skuldum flugfélagsins og framtíðar leigutekjum í hlutafé. Það munu nefnilega ekki vera fordæmi fyrir því að flugvélaleigur og fjármögnunarfyrirtæki geri slíkt því þar með er hætta á að aðrir viðskiptavinir fari fram á þess háttar. Sérstaklega núna þegar nærri allur fluggeirinn er kominn af fótum fram.

Þrátt fyrir það þá lögðu stjórnendur Norwegian fram tilboð til eigenda þotanna um að þeir myndu samanlagt afskrifa um 550 milljónir dollara (80 milljarðar kr.) af kröfum sínum á félagið. Um er að ræða tuttugu og fjögur mismunandi fyrirtæki og þar af nokkrar af stærstu flugvélaleigum heims. Nú í morgunsárið greina norskir fjölmiðlar frá því að nú þegar hafi fengist vilyrði fyrir um 730 milljónum dollara (107 milljörðum kr.) skuldabreytingu.

Það er því útlit fyrir að stjórnendum Norwegian hafi nú um helgina tekist að ná samningum við bæði skuldabréfaeigendur og flugvélaleigur.

Nú stendur svo yfir hluthafafundur hjá flugfélaginu og þar þarf að fást samþykki fyrir því að færa niður núverandi hlutafé að langmestu leyti niður. Þetta er þriðja og síðasta hindrunin sem er í veginum fyrir því að Norwegian nái að uppfylla þær kröfur sem norsk stjórnvöld hafa gert fyrir því að veita félaginu lánaábyrgð upp á tæpa fjörutíu milljarða króna. Forstjóri Norweigan hefur ítrekað það síðustu daga að án samþykkis hluthafanna þá er útlit fyrir að Norwegian fari í þrot.

Líkt og Túristi fjallaði nýverið um þá hefur Norwegian verið stórtækt í Spánarflugi frá Keflavíkurflugvelli síðustu misseri. Auk þess hefur félagið veitt Icelandair harða samkeppni í flugi yfir Norður-Atlantshafið.