Norwegian skrefi nær framtíð

Skuldabréfaeigendur gáfu loks grænt ljós á að breyta kröfum í hlutafé. Í seinasta lagi á morgun ræðst hvort hluthafar og flugvélaleigur sætti sig líka við þá afarkosti sem þeim eru boðnir og forði þannig Norwegian frá gjaldþroti.

Mynd: Norwegian

Forsendan fyrir því að Norwegian fái rúmlega 38 milljarða króna lánaábyrgð frá norska ríkinu er að félagið grynnki á skuldum og auki eigið fé. Félagið hefur nefnilega farið alltof geyst síðustu ár, umsvifin hafa margfaldast en afkoman ávallt röngum megin við núllið.

Til að eiga möguleika á að fá lánalínuna þá stilltu stjórnendur Norwegian upp áætlun sem neyðir skuldabréfaeigendur, flugvélaleigur og hluthafa til að sætta sig við töluvert tap. Tveir fyrrnefndu hóparnir þurfa að breyta stórum hluta af kröfum í hlutafé og núverandi hluthafar halda eftir sáralitlum hlut í félaginu.

Fyrstir að samningaborðinu voru skuldabréfaeigendur og var ætlunin að ganga frá samkomulagi við þá á fimmtudaginn síðasta. Það var þó fyrst í gær sem það hafðist. Í kvöld eru svo bundnar vonir við að tuttugu og fjórar mismunandi flugvélaleigur og fjármögnunarfyrirtæki sætti sig við að stytta 470 milljarða skuldahala um rúmar sjötíu milljarða. Þeirri upphæð verður breytt í hlutafé en eins og greinendur hafa bent á þá tíðkast ekki að flugvélaleigur gerist hluthafar í flugfélagi. Hinar óvenjulegu aðstæður sem nú ríkja gætu aftur á móti hjálpað til.

Í fyrramálið er svo röðin komin að hluthöfunum og samkvæmt frétt Dagens Næringsliv þá er útlit fyrir að þeir sætti sig við orðinn hlut. Hópur minni fjárfesta hafði hótað því að fella samkomulagið en nú yfir helgina mun Bjørn Kjos, stofnandi og fyrrum forstjóri félagsins, hafa náð að sannfæra forsvarsmenn þess hóps um að ganga í takt.

Morgundagurinn verður því vafalítið spennandi í herbúðum Norwegian en félagið hefur verið stórtækt í Spánarflugi frá Keflavíkurflugvelli síðustu misseri. Auk þess hefur Norwegian veitt Icelandair harða samkeppni í flugi yfir Norður-Atlantshafið.