Örfáir farþegar í þeim fáu ferðum sem farnar voru

Farþegum Icelandair fækkaði um 99 prósent í apríl.

Mynd: Icelandair

Nú þegar landamæri eru lokuð og fólk er ráðlagt að ferðast ekki til útlanda þá liggur flug til og frá Keflavíkurflugvelli nærri því niðri. Í síðasta mánuði voru til að mynda aðeins farnar þrjátíu áætlunarferðir þaðan og samkvæmt nýbirtum farþegatölum Icelandair þá flutti félagið eingöngu 1.711 farþega í apríl. Það er samdráttur um 99 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar um 318 þúsund nýttu sér ferðir félagsins.

Athygli vekur að sætanýtingin í þeim fáu ferðum sem Icelandair fór í apríl var aðeins þrettán prósent. Það þýðir að í hefðbundinni 183 sæta Boeing 757 farþegaþotu félagsins hafi að jafnaði aðeins verið 24 farþegar.

Farþegum í innanlandsflugi Air Iceland Connect fækkaði sömuleiðis gríðarlega eða um 91 prósent. Samgöngurráðuneytið styrkir ferðir Icelandair og Air Iceland Connect þessar vikurnar.