Ráðherrar vilja efla norrænt samstarf um samgöngumál

Samgönguráðherrar Norðurlanda vilja efla samstarfið á sviði samgöngumála, einkum hvað varðar grænar og sjálfbærar lausnir.

Sigurður Ingi Jóhannsson á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í fyrra. Mynd: Norðurlandaráð / Johannes Jansson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ásamt samgönguráðherrum hinna Norðurlandanna efndu til óformlegs stafræns fundar í dag. Urðu þeir sammála um að auka samstarfið á fjölda sviða, einkum hvað varðar grænar og sjálfbærar lausnir. Í tilkynningu frá Norðurlandaráði segir að samgöngugeirinn gegni mikilvægu hlutverki í grænum umskiptum og þróunin sé hröð þegar kemur að rafrænum samgöngum, sjálfbærari orkugjöfum og aðgerðum til að gera innviði sjálfbærari til framtíðar.

„Stór hluti samgangna á Norðurlöndum fer yfir landamæri og því vilja norrænu samgönguráðherrarnir kanna á hvaða sviðum sé vert að auka samstarfið milli landanna. Á fundinum var velt upp fjölda raunhæfra og hugsanlegra samstarfssviða og urðu ráðherrarnir ásáttir um að koma á fót starfshópi sem falið yrði að greina þau svið sem mestur akkur væri í að eiga samstarf á innan ramma Norrænu ráðherranefndarinnar,“ segir í tilkynningu.

Ráðherrarnir ræddu einnig Covid-19 og þær áskoranir sem fylgja því að opna samfélög landanna smám saman aftur eftir heimsfaraldurinn. Ráðherrarnir slógu því föstu að norrænu löndin stæðu þar frammi fyrir svipuðum viðfangsefnum og gætu lært heilmikið hvert af öðru.