Samfélagsmiðlar

Rekstrartapið ríflega þrefaldaðist

Fyrsti fjórðungur ársins er Icelandair vanalega erfiður. Að þessu sinni var tapið af starfsemi mun meira en áður enda stöðvuðust flugsamgöngur í mars. Árið byrjaði samt vel en þá var Icelandair á ný með yfirburðastöðu í Íslandsflugi eftir fall WOW.

Bráðabirgðatölur úr uppgjöri Icelandair samsteypunnar gefa til kynna að tekjur hafi dregist saman um 16 prósent og rekstrartapið numið 26,8 milljörðum króna eða 208 milljónum dollara. Þetta kemur fram í tilkynning sem félagið sendi frá sér í gær. Til samanburðar þá nam tap félagsins á sama tíma í fyrra um 60 milljónum dollara eða 7,2 milljörðum króna á þáverandi gengi.

Fyrstu tvo mánuðina í ár var afkoma Icelandair í takt við væntingar og batnaði verulega á milli ára samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Marsmánuður var aftur á móti töluvert undir væntingum vegna áhrifa COVID-19 farsóttarinnar og afleiðinga hennar.

Árið byrjaði því vel hjá Icelandair og í viðtali við Mbl.is í gærkvöld segir Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, að reksturinn fyrstu tvo mánuði ársins hafi gengið miklu betur en í fyrra. Í því samhengi má rifja upp að WOW air var á fleygiferð í janúar í og febrúar í fyrra en að þessu sinni var Icelandair laust við helsta keppinautinn. Icelandair stóð þar með á ný undir rúmlega sextíu prósent áætlunarferða til og frá landinu sem var álíka og á árunum áður en Ameríkuflug WOW air hófst.

Það eru örfá flugfélög búin að birta uppgjör fyrir fyrsta fjórðung þessa árs og Finnair er eitt þeirra. Hjá því félagi lækkuðu tekjurnar hlutfallslega jafn mikið og hjá Icelandair eða um sextán prósent á þessu tímabili. Taprekstur finnska félagsins jókst líka frá fyrsta fjórðungi og nam um fimmtán milljörðum króna.

Í farþegum talið er Finnair fimm sinnum stærra flugfélag en Icelandair en rekstur þess finnska snýr þó eingöngu að flugi á meðan Icelandair samsteypan rekur einnig fjölda dótturfyrirtækja, þar á meðal ferðaskrifstofur og hótel, sem hafa sín áhrif á reksturinn. Eins og Túristi hefur áður fjallað um þá á finnska ríkið 56 prósent hlut í Finnair.

Samkvæmt tilkynningu Icelandair þá er lausafjárstaða félagsins enn yfir því 200 milljón dollara viðmiði sem stjórnendur þess vinna eftir en upphæðin gæti farið undir þessi mörk á næstu vikum. Þar hefur vafalítið endurgreiðsla á flugmiðum mikil áhrif því virði ónotaðra flugmiða nam 154 milljónum dollara um síðustu áramót. Gera má ráð fyrir að sú upphæð hafi hækkað mikið í byrjun árs því þá bóka margir ferðir sumarsins. Núna stefnir í að sumaráætlunin verði miklu takmarkaðri en upphaflega var gert ráð fyrir og þá þarf að endurgreiða stóran hluta farmiðateknanna.

Í ljósi neikvæðrar þróunar eldsneytisvarna hefur Icelandair millifært 2,6 milljarða króna inn á bundna reikninga hjá mótaðilum líkt og segir í tilkynningu. Icelandair, líkt og mörg önnur flugfélög, koma illa út úr samningum um kaup á eldsneyti á ákveðnu verði um þessar myndir enda hefur heimsmarkaðsverð hrunið og flug liggur niðri.

Icelandair sagði stórum hluta starfsfólks upp fyrir mánaðamót og nú undirbúa stjórnendur þess hlutafjárútboð sem fara á fram í næsta mánuði. Íslensk stjórnvöld tilkynntu svo fyrradag að þau væru tilbúin að kanna möguleika á að veita félaginu lánalínu eða ábyrgð á lánum til félagsins.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.

Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …