Segja upp 403 starfsmönnum

Bláa Lónið hefur gripið til aðgerða til að bregðast við miklum samdrætti og óvissu í ferðaþjónustu næstu misseri.

Mynd: Bláa lónið

Bláa lónið hefur lengi verið einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Vöxtur fyrirtækisins hefur því verið hraður síðustu ár og til marks um umsvifin unnu 764 starfsmenn hjá fyrirtækinu í febrúar síðastliðnum.

Stuttu eftir að kórónuveirukrísan hófst sagði fyrirtækið upp 164 og nú um mánaðamótin verður 403 starfsmönnum í viðbót sagt upp.

Ástæðan uppsagnanna er sú að að áhrif Covid-19 eru miklu umfangsmeiri og langvinnari en væntingar voru um samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Bláa lóninu.

Þar segir að vonast sé til þess að hægt verði að endurráða starfsfólkið til starfa þegar ytri aðstæður breytast til hins betra. Laun þeirra starfsmanna sem ekki fá uppsögn verða skert, mest hjá forstjóra og stjórn um 30 þrjátíu prósent og um fjórðung hjá framkvæmdastjórn og minna hjá öðrum.

„Þrátt fyrir mikla óvissu hefur verið ákveðið að opna allar starfsstöðvar Bláa Lónsins á ný þann 19. júní næstkomandi, eftir tæplega þriggja mánaða lokun en á því tímabili hefur fyrirtækið verið nær tekjulaust,“ segir í tilkynningu.