Samfélagsmiðlar

Seldu lendingarleyfi, flugvélar og dótturfélög til að komast á flug á ný

Í lok þessarar vinnuviku liggur fyrir hvort hluthafar í Icelandair gefa grænt ljós á að auka hlutafé félagsins og þannig koma félaginu til bjargar.

Rickard Gustafson, forstjóri SAS, kom félaginu í gegnum mikla krísu í byrjun síðasta áratugar og seldi þá mikið af eignum félagsins.

Icelandair þarf nauðsynlega á auknu lausafé að halda og í lok vikunnar greiða hluthafar fyrirtækisins atkvæði um nærri þrjátíu milljarða króna hlutafjárútboð. Allt kapp er nú lagt á að langtímasamningar við flugfreyjur félagsins liggi fyrir áður en að fundurinn hefst.

Það þarf þó meira til líkt og haft var eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í fréttatilkynningu í síðustu viku. „Það eru fjölmargir þættir sem verða að ganga upp til að endurfjármögnun Icelandair Group gangi eftir. Einn af þeim eru langtímasamningar við flugstéttir,“ sagði forstjórinn.

Hann nefndi engin dæmi um aðgerðir en nú liggur fyrir að í komandi hlutafjárútboði stendur lánveitendum til boða hlutafé gegn lækkun skulda.

Í miðjum heimsfaraldri eins og nú geysar er sala á eignum aftur á móti ekki ákjósanleg til að ráða bóta á vandanum. Stjórnendur SAS gátu hins vegar nýtt sér þann kost þegar þeir unnu að endurreisn sinni í árslok 2012 en ákveðin líkindi eru með þeirri baráttu og lífróðri Icelandair í dag.

Kjaramálin voru þannig líka sett á oddinn hjá SAS og sérstaklega skert lífeyrisréttindi starfsfólks. Á elleftu stundu tókust samningar við starfsfólk.

Skandinavíska félagið bókfærði þó líka söluhagnað upp á ríflega milljarð sænskra króna í tengslum við sölu á dótturfélögum árin 2012 og 2013. Þar á meðal norska innanlandsflugfélagið Widerøe og einnig stóran hlut í flugþjónustufyrirtæki félagsins.

Til viðbótar fengust háar upphæðir fyrir lendingarleyfi á Heathrow árið 2012 og aftur 2015. Í fyrri viðskiptunum var eitt leyfi til að mynda selt fyrir 60 milljónir dollara en í seinna skiptið fékkst aðeins um þriðjungur af þeirri upphæð. Verðið á slottunum ræðst af því hvenær dagsins það er.

Icelandair á tvö lendingarleyfi á Heathrow en í ljósi aðstæðna í dag er sala á þeim varla fýsileg.

SAS hefur einnig komið gömlum flugvélum í verð síðustu ár og átti félagið til að mynda þrjár af þeim Bombardier flugvélum sem Icelandair Group keypti fyrir Air Iceland Connect. Reyndar voru vélarnar í eigu flugfélags í Papúa-Nýju Gíneu í millitíðinni.

SAS hefur einnig innleyst mikinn hagnað í tengslum við samninga um sölu og endurleigu á nýjum Airbus þotum. Sambærilega samninga hefur Icelandair einnig gert í tenglsum við sjö af þeim níu MAX þotum sem framleiddar hafa verið fyrir félagið. Hagnaðurinn af þessum samningum hefur þó líklega reynst Icelandair skammgóður vermir í ljósi þess að þoturnar hafa verið kyrrsettar í fjórtán mánuði og ennþá er óljóst hvenær þær fljúga á ný.

Þess ber þó að geta að þrátt fyrir að viðspyrna SAS hafi heppnast og fyrirtækið rekið réttum megin við núllið allt frá árinu 2015 þá er SAS, líkt og flest önnur flugfélög, í alvarlegri krísu í dag.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …