Selja áfram hlutabréf í Icelandair í smáskömmtum

Þriðju vikuna í röð selur stærsti hluthafinn í Icelandair Group hluta af bréfum sínum.

Mynd: Berlin Airport

Þegar bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management keypti 11,5 prósent hlut í Icelandair Group fyrir þrettán mánuðum síðan þá var gengi bréfanna 9,03. Þessi viðskipti voru upp á tæpa sex milljarða króna og svo bætti sjóðurinn við hlut sinn síðastliðið sumar en þá rokkaði gengið á milli tíu og ellefu. PAR Capital hefur svo setið á 13,7 prósent hlut í Icelandair allt frá því um mitt síðasta sumar.

Í ár hefur virði Icelandair, líkt og annarra flugfélaga, hríðfallið sem rekja má til útbreiðslu kórónaveirunnar. Gengi bréfanna er þannig 1,6 dag en þrátt fyrir þessa miklu rýrnun þá hefur hefur PAR Capital selt bréf í Icelandair síðustu þrjár vikur en þó í litlum skömmtum. Þannig fór hlutur félagsins í íslensku samsteypunni niður í 13,5 prósent í fyrstu sölunni og svo niður í 13,2 prósent í síðustu viku.

Bandarísku fjárfestarnir hafa haldið uppteknum hætti síðustu daga því samkvæmt nýjasta hlutahafalista Icelandair þá er PAR Capital í dag skráð fyrir 12,77 prósent hlut í Icelandair. Næst stærsti hluthafinn er sem fyrr Lífeyrissjóður verslunarmanna með 11,81 prósent. Ef PAR Capital heldur áfram að selja bréf í sama takti næstu vikurnar þá er ekki víst að sjóðurinn verði stærsti hluthafinn þegar að kemur að boðuðu hlutafjárútboði í þessu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. En þá þarf reyndar einhver að vera til í að kaupa bréfin af PAR.