Sjá ekki tilgang í gistibanninu í Kaupmannahöfn

Forsvarsfólk ferðaþjónustunnar í Danmörku setur spurningamerki við áætlun stjórnvalda um hvernig staðið verði að opnun landsins.

Það verða líklega fáir erlendir ferðamenn í kvöldmat á veitingahúsum Kaupmannahafnar í sumar. Þeir verða nefnilega að gista fyrir utan höfuðborgina. Mynd: Visit Copenhagen

Um miðjan næsta mánuð mega Þjóðverjar, Norðmenn og Íslendingar ferðast til Danmerkur á ný. Þeir mega þó ekki gista á hótelum í Kaupmannahöfn fyrst um sinn. Þannig vilja dönsk stjórnvöld draga úr líkunum á að kórónuveiran nái fótfestu á ný í fjölmenninu í höfuðborginni.

„Það eru reistur múr í kringum Kaupmannahöfn fyrir þýska, norska og íslenska næturgesti. Sem vel að merkja koma frá löndum sem hafa góða stjórn á smitum,“ segir í tilkynningu frá Horesta, samtökum danskra ferðaþjónustufyrirtækja.

Katia K. Østergaard, formaður Horesta, segist fagna því að Danmörk opni á ný og bendir á að samanlagt standi Þjóðverjar og Norðmenn undir um fjörutíu prósent af veltu ferðaþjónustunnar í landinu.

Østergaard segist þó ekki sjá tilganginn í gistibanninu í höfuðborginni. Sérstaklega þar sem ferðamennirnir megi vera þar yfir daginn. „Það er algjörlega ólógískt,“ segir formaðurinn.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá var ríflega helmingur gistinátta Íslendinga í Danmörku sl. sumar í höfuðborginni sjálfri.

Icelandair ætlar að hefja daglegt áætlunarflug á ný til Kaupmannahafnar þann 15. júní. Ekki liggur fyrir hvenær SAS tekur upp þráðinn í Íslandsflugi sínu.