Snúa aftur til Keflavíkurflugvallar næsta sumar og þá á nýjum þotum

Ekkert verður af daglegum ferðum American Airlines til Keflavíkurflugvallar í sumar. Aftur á móti ætlar félagið að snúa aftur á næsta ári og þá á Airbus þotum í stað Boeing.

Mynd: American Airlines

Stjórnendur American Airlines biðu ekki boðanna þegar bæði WOW air og Icelandair hófu sölu á flugi héðan til Dallas í Bandaríkjunum. Í þeirri borg er höfuðvígi American Airlines og svaraði félagið þessari innrás íslensku félaganna með því að hefja Íslandsflug frá Dallas/Fort Worth flugvelli. Framboðið varð því gríðarlegt á þessari flugleið sem kom íslenskri ferðaþjónustu til góðs líkt og tölur frá flugmálayfirvöldum vestanhafs sýndu.

American Airlines hélt svo uppteknum hætti síðasta sumar en þá hafði Icelandair dregið sig tilbaka frá Dallas og WOW air gjaldþrota. Núna í sumar ætlaði American Airlines svo að færa Íslandsflug sitt frá Dallas til Philadelphia og þar með veita Icelandair samkeppni í þeirri borg. Ekkert verður þó af þessum ferðum í sumar vegna niðurskurðar hjá bandaríska flugfélaginu sem rekja má til kórónaveirukrísunnar.

American Airlines hefur notað Boeing 757 þotur í ferðir sínar til Íslands en nú ætla stjórnendur félagsins að leggja þessum gömlu þotum alfarið. Næsta sumar áformar American Airliens því að fljúga nýjum Airbus A321neo þotum hingað til lands og það daglega frá Philadelphia samkvæmt frétt flugsíðunnar Routes online.

Í Airbus þotunum eru 196 sæti eða tuttugu fleiri en í gömlu Boeing þotunum sem félagið notaði áður. Þar með eykst sætaframboðið umtalsvert. Sala á flugferðum sumarsins 2021 er þó ekki hafin á vef American Airlines.