Spánarferðir kannski möguleiki í lok júní

Frá sundlaugarbakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Þeir sem ferðast til Spánar í dag þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Spænskir ráðamenn vonast aftur á móti til að í lok næsta mánaðar verði hægt að draga úr þessum kröfum og opna landið almennilega fyrir ferðafólki.

„Um leið og Spánverjar mega ferðast á milli héraða þá geta ferðamenn komið til Spánar,“ er haft eftir Jose Luis Abolos, samgönguráðherra Spánar, á breska ferðavefnum Travelmole.

Þar er jafnframt haft eftir forsvarsmanni ferðamála í Palma á Mallorca að undirbúningur sé hafinn fyrir komandi vertíð.

Í því samhengi má rifja upp að Eurowings, dótturfélag Lufthansa, mun meðal annars einbeita sér að flugi frá Þýskalandi til áfangastaða við Miðjarðarhafið í næsta mánuði. Aftur á móti virðist félagið ætla að hinkra með ferðir sínar frá Hamborg til Íslands.

Íslendingar fjölmenna til Spánar allt árið um kring þannig hefur framboð íslenskra ferðaskrifstofa á sólarlandaferðum nær eingöngu takmarkast við Spánarreisur.

Framboð á áætlunarflugi héðan til Spánar er aftur á móti í lausu lofti því útlit er fyrir að Norwegian muni ekki sinna Íslandsflugi frá Spáni næstu mánuði. Á sama tíma hefur Icelandair ákveðið að bíða í alla vega eitt ár með að hefja áætlunarflug til Barcelona.