Opnar nýja mögu­leika í flugi Icelandair

Sömu flugmenn gætu flogið þotum Icelandair út til Boston og heim aftur í stað þess að dvelja úti eina nótt samkvæmt nýja kjarasamningnum. Þessi aukna nýting hefur einnig áhrif á möguleika félagsins varðandi flug til austur- og suðurhluta Evrópu.

Frá Boston. Mynd: Lance Anderson / Unsplash

Boston er ein af þeim borgum sem Icelandair flýgur oftast til. Flug­ferðin tekur á bilinu fimm til fimm og hálfan klukku­stund og við komuna til Boston þá hefur sá háttur ávallt verið hafður á að ný áhöfn tekur við þotunni. Sú sem er nýkomin heldur til hvíldar inn í borg­inni en flýgur svo farþegum félagsins til Íslands daginn eftir.

Sá kjara­samn­ingur sem Félag íslenskra atvinnuflug­manna og Icelandair samsteypan undir­rituðu í gær felur aftur á móti í sér að nú geta sömu flug­menn flogið þotunum báðar leiðir innan dagsins. Þeir fá þá hvíldina í staðinn á Íslandi samkvæmt heim­ildum Túrista.

Til að þetta gangi upp þurfa þoturnar að leggja í hann frá Kefla­vík­ur­flug­velli að morgni dags og koma tilbaka fyrir dagslok. Núna er bróð­urpartur allra brott­fara Icelandair til Banda­ríkj­anna og Kanada seinnipartinn og nýtt samkomulag um þessa bættu nýtingu flug­manna hefði ekki áhrif á þær ferðir.

Flug til New York og Toronto tekur um sex tíma og er því líklega of langt fyrir þetta fyrir­komulag. Aftur á móti gætu flug­menn Icelandair flogið til Montreal í Kanada og jafnvel fleiri borga á aust­ur­strönd Norður-Ameríku innan nýja tímarammans verði hann samþykktur af félags­mönnum FÍA. Á sama hátt gerir nýi samn­ing­urinn fyrir því að hvíld­ar­tími flug­manna eftir flug til vest­ur­strandar Banda­ríkj­anna styttist úr tveimur dögum í einn.

Ef flug­menn samþykkja þessar breyt­ingar þá mun það jafn­framt hafa áhrif á Evrópuflug Icelandair því þá getur félagið á sótt lengra í austurs. Þannig verður mögu­legt að fljúga til borga eins og Moskvu og Rómar án þess að flug­menn dvelji ytra. Þar með sparast hótel­kostn­aður og dagpen­ingar en á sama tíma getur félagið stillt af tíðni ferða mun betur en áður. Þessi breyting gerir sólar­landa­flug, til að mynda til Las Palmas og Tenerife, hagkvæmari valkost fyrir Icelandair þar sem flug­menn fljúga þotunum fram og tilbaka innan dagsins.

Flug­fé­lagið hafði uppi áform um stór­aukið flug þangað við fall WOW en ekkert varð af þeim áformum. Aukið sólar­landa­flug yfir vetr­ar­mán­uðina myndi aftur á móti draga aðeins úr hinni miklu árstíða­sveiflu sem er í rekstri Icelandair.

Þess ber þó að geta að Icelandair og Flug­freyju­félag Íslands hafa ekki náð saman um nýjan kjara­samning en gera má ráð fyrir að flug­fé­lagið gerir kröfu um sambæri­legar breyt­ingar á hvíld­ar­á­kvæðum flug­freyja og flug­þjóna.