Opnar nýja möguleika í flugi Icelandair

Sömu flugmenn gætu flogið þotum Icelandair út til Boston og heim aftur í stað þess að dvelja úti eina nótt samkvæmt nýja kjarasamningnum. Þessi aukna nýting hefur einnig áhrif á möguleika félagsins varðandi flug til austur- og suðurhluta Evrópu.

Frá Boston. Mynd: Lance Anderson / Unsplash

Boston er ein af þeim borgum sem Icelandair flýgur oftast til. Flugferðin tekur á bilinu fimm til fimm og hálfan klukkustund og við komuna til Boston þá hefur sá háttur ávallt verið hafður á að ný áhöfn tekur við þotunni. Sú sem er nýkomin heldur til hvíldar inn í borginni en flýgur svo farþegum félagsins til Íslands daginn eftir.

Sá kjarasamningur sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair samsteypan undirrituðu í gær felur aftur á móti í sér að nú geta sömu flugmenn flogið þotunum báðar leiðir innan dagsins. Þeir fá þá hvíldina í staðinn á Íslandi samkvæmt heimildum Túrista.

Til að þetta gangi upp þurfa þoturnar að leggja í hann frá Keflavíkurflugvelli að morgni dags og koma tilbaka fyrir dagslok. Núna er bróðurpartur allra brottfara Icelandair til Bandaríkjanna og Kanada seinnipartinn og nýtt samkomulag um þessa bættu nýtingu flugmanna hefði ekki áhrif á þær ferðir.

Flug til New York og Toronto tekur um sex tíma og er því líklega of langt fyrir þetta fyrirkomulag. Aftur á móti gætu flugmenn Icelandair flogið til Montreal í Kanada og jafnvel fleiri borga á austurströnd Norður-Ameríku innan nýja tímarammans verði hann samþykktur af félagsmönnum FÍA. Á sama hátt gerir nýi samningurinn fyrir því að hvíldartími flugmanna eftir flug til vesturstrandar Bandaríkjanna styttist úr tveimur dögum í einn.

Ef flugmenn samþykkja þessar breytingar þá mun það jafnframt hafa áhrif á Evrópuflug Icelandair því þá getur félagið á sótt lengra í austurs. Þannig verður mögulegt að fljúga til borga eins og Moskvu og Rómar án þess að flugmenn dvelji ytra. Þar með sparast hótelkostnaður og dagpeningar en á sama tíma getur félagið stillt af tíðni ferða mun betur en áður. Þessi breyting gerir sólarlandaflug, til að mynda til Las Palmas og Tenerife, hagkvæmari valkost fyrir Icelandair þar sem flugmenn fljúga þotunum fram og tilbaka innan dagsins.

Flugfélagið hafði uppi áform um stóraukið flug þangað við fall WOW en ekkert varð af þeim áformum. Aukið sólarlandaflug yfir vetrarmánuðina myndi aftur á móti draga aðeins úr hinni miklu árstíðasveiflu sem er í rekstri Icelandair.

Þess ber þó að geta að Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands hafa ekki náð saman um nýjan kjarasamning en gera má ráð fyrir að flugfélagið gerir kröfu um sambærilegar breytingar á hvíldarákvæðum flugfreyja og flugþjóna.