Styðja við spænsku flugfélögin

Iberia og Vueling tilheyra bæði flugfélagasamsteypunni IAG ásamt British Airways og Aer Lingus. Nú ætla spænsk stjórnvöld að styðja við þau tvö fyrrnefndu.

iberia express
Mynd: Iberia Express

Þeim fjölgar sífellt flugfélögunum sem þurfa að leita á náðir hins opinbera eftir hlutafé eða lánum vegna kórónaveirukrísunnar. Icelandair bættist í þann hóp í gær þegar ríkisstjórnin gaf út að ríkið væri tilbúið að eiga samtal um mögulega veitingu lánalínu eða ábyrgð á lánum til Icelandair. Í dag var svo röðin komin að spænsku flugfélögunum Iberia og Vueling en spænska ríkið ætlar að ábyrgjast lán til félaganna upp á einn milljarða evra eða um 160 milljarða króna samkvæmt frétt Bloomberg.

Bæði flugfélögin tilheyra eignarhaldsfélaginu IAG og það gera líka British Airways og hið írska Aer Lingus. Lánin frá spænska ríkinu eru þó eyrnamerkt spænsku flugfélögunum tveimur, Iberia fær þrjá fjórðu upphæðarinnar og Vueling fjórðung.

Áður hafa stjórnendur British Airways hafnað opinberum stuðningi og hafa því ekki sóst eftir láni úr sérstökum breskum sjóði til stuðnings við atvinnulífið þar í landi vegna heimsfaraldursins. Þeir ætla engu að síður að segja upp nærri þremur af hverjum tíu starfsmönnum og hefur félag breska flugmanna lýst yfir furðu á þeirri ráðagerð í ljósi þess að félagið hafnar öllum opinberum stuðningi.

Nú liggur aftur á móti fyrir að bæði Iberia og Vueling fá opinberan stuðning en bæði þessi félög stunda Íslandsflug. Vueling flýgur hingað frá Barcelona og dótturfélag Iberia, Iberia Express, býður upp á áætlunarferðir milli Íslands og Madrídar á sumrin.