Tap Eldeyjar þrefald­aðist

Virði eigna fjárfestingasjóðsins Eldeyjar hefur rýrnað um nærri milljarð króna frá árslokum 2018. Tap sjóðsins nemur um 1,4 milljarði síðustu tvö ár.

Skjámynd af vef Eldeyjar

„Annus horri­bilis! Þetta var skelfi­legt ár,” sagði Hrönn Greips­dóttir, fram­kvæmda­stjóri fjár­fest­inga­sjóðsins Eldey, í viðtali við Frétta­blaðið fyrir tveimur árum síðan. Þar var hún var spurð um rekstur fyrir­tækja í eigu sjóðsins árið 2017.

Það ár nam tap Eldeyjar einni milljón króna en óhætt er að segja að afkoma sjóðsins hafi versnað mjög eftir hið „skelfi­lega ár” 2017.

Tapið árið 2018 var upp á 355 millj­ónir og það þrefald­aðist svo í fyrra. Þá nam það rúmlega millj­arði eða 1.055 millj­ónum króna. Þetta kemur fram í nýjum ársreikn­ingi Eldeyjar.

Það eru Íslands­sjóðir, dótt­ur­félag Íslands­banka, sem rekur Eldey og í svari, við fyrir­spurn Túrista, segir að tap Eldeyjar í fyrra sé að öllu leyti tilkomið vegna virð­isrýrn­unar eigna sem gera þurfti eftir á vegna áhrifa Covid-19. Gjald­þrot Saga Travel nú í apríl hefur líka sitt að segja en sjóð­urinn átti 67 prósent í því félagi. Í svarinu segir jafn­framt að rekstur Eldeyjar hafi gengið prýði­lega í fyrra og samkvæmt áætlun þess árs.

Allt frá stofnun Eldeyjar í árslok 2015 hefur félagið aðeins fjár­fest í fyrir­tækjum sem sérhæfa sig í afþrey­ingu fyrir ferða­fólk. Mark­miðið var að skrá sjóðinn á markað en nú er unnið að því að sameina hann Kynn­is­ferðum, einu stærsta ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæki landsins.

Í tengslum við þá samein­ingu stóð til að kalla eftir 2,3 millj­örðum króna frá hlut­höfum samkvæmt því sem fram kom í kynn­ingu til hlut­hafa fyrr í þessum mánuði. Þau áform breyttust aftur á móti og þurfa hlut­hafar nú að leggja félaginu til hálfan milljarð króna samkvæmt heim­ildum Túrista.

Það eru íslenskir lífeyr­is­sjóðir sem eiga um sjötíu prósent hluta­fjár í Eldey og stærstur er Birta lífeyr­is­sjóður með um fjórð­ungs hlut. Íslands­banki á tíund og aðrir hlut­hafar fara með um fimmtung.

Heild­ar­skuld­binding sjóðsins gagn­vart Íslands­banka nemur um 1,8 millj­arði króna samkvæmt fyrr­nefndri hlut­hafa­kynn­ingu.

Svein­björn Indriðason, forstjóri Isavia, á sæti í stjórn Eldeyjar og líka Þórdís Lóa Þórhalls­dóttir, formaður borg­ar­ráðs og borg­ar­full­trúi Viðreisnar. Árni Gunn­arsson, fram­kvæmda­stjóri hjá Icelandair samsteyp­unni, situr þar einnig og Arnar Þórisson, stjórn­ar­formaður ferða­skrif­stof­unnar Kilroy. Stjórn­ar­formaður Eldeyjar er Hildur Árna­dóttir, stjórn­ar­formaður Íslands­stofu.

Eignir Eldeyjar í dag eru þessar: Arcanum fjalla­leið­sögu­menn (72,2%), Dive.is (51%), Norð­ur­sigling (43,3%), Logakór (62,2%) og Íslenskar heilsu­lindir (20%).