Tap Eldeyjar þrefaldaðist

Virði eigna fjárfestingasjóðsins Eldeyjar hefur rýrnað um nærri milljarð króna frá árslokum 2018. Tap sjóðsins nemur um 1,4 milljarði síðustu tvö ár.

Skjámynd af vef Eldeyjar

„Annus horribilis! Þetta var skelfilegt ár,“ sagði Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfestingasjóðsins Eldey, í viðtali við Fréttablaðið fyrir tveimur árum síðan. Þar var hún var spurð um rekstur fyrirtækja í eigu sjóðsins árið 2017.

Það ár nam tap Eldeyjar einni milljón króna en óhætt er að segja að afkoma sjóðsins hafi versnað mjög eftir hið „skelfilega ár“ 2017.

Tapið árið 2018 var upp á 355 milljónir og það þrefaldaðist svo í fyrra. Þá nam það rúmlega milljarði eða 1.055 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi Eldeyjar.

Það eru Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, sem rekur Eldey og í svari, við fyrirspurn Túrista, segir að tap Eldeyjar í fyrra sé að öllu leyti tilkomið vegna virðisrýrnunar eigna sem gera þurfti eftir á vegna áhrifa Covid-19. Gjaldþrot Saga Travel nú í apríl hefur líka sitt að segja en sjóðurinn átti 67 prósent í því félagi. Í svarinu segir jafnframt að rekstur Eldeyjar hafi gengið prýðilega í fyrra og samkvæmt áætlun þess árs.

Allt frá stofnun Eldeyjar í árslok 2015 hefur félagið aðeins fjárfest í fyrirtækjum sem sérhæfa sig í afþreyingu fyrir ferðafólk. Markmiðið var að skrá sjóðinn á markað en nú er unnið að því að sameina hann Kynnisferðum, einu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Í tengslum við þá sameiningu stóð til að kalla eftir 2,3 milljörðum króna frá hluthöfum samkvæmt því sem fram kom í kynningu til hluthafa fyrr í þessum mánuði. Þau áform breyttust aftur á móti og þurfa hluthafar nú að leggja félaginu til hálfan milljarð króna samkvæmt heimildum Túrista.

Það eru íslenskir lífeyrissjóðir sem eiga um sjötíu prósent hlutafjár í Eldey og stærstur er Birta lífeyrissjóður með um fjórðungs hlut. Íslandsbanki á tíund og aðrir hluthafar fara með um fimmtung.

Heildarskuldbinding sjóðsins gagnvart Íslandsbanka nemur um 1,8 milljarði króna samkvæmt fyrrnefndri hluthafakynningu.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, á sæti í stjórn Eldeyjar og líka Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Viðreisnar. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Icelandair samsteypunni, situr þar einnig og Arnar Þórisson, stjórnarformaður ferðaskrifstofunnar Kilroy. Stjórnarformaður Eldeyjar er Hildur Árnadóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu.

Eignir Eldeyjar í dag eru þessar: Arcanum fjallaleiðsögumenn (72,2%), Dive.is (51%), Norðursigling (43,3%), Logakór (62,2%) og Íslenskar heilsulindir (20%).