Tapið gríðarlegt hjá skandinavísku flugfélögunum

Rekstur Norwegian og SAS er skiljanlega í járnum og tapið talið í mörgum tugum milljarða króna. Forsvarsfólk félaganna gerir líka ráð fyrir að peningarnir muni flæða út næstu mánuði.

Flugvélar SAS og Norwegian vil flugvöllinn í Ósló. Mynd: Óslóarflugvöllur

Stjórnendur Norwegian og SAS birti í morgun uppgjör fyrir fyrstu mánuði ársins. Niðurstaðan hjá því fyrrnefnda var tap upp á 46 milljarða króna (3,3 milljarðar norskra) og skýringin liggur skiljanlega að miklu leyti í áhrifum Covid-19.

Hjá SAS var tapið ennþá hærra eða 50 milljarðar króna (3,7 milljarðar sænskra). Uppgjör SAS nær yfir tímabilið frá febrúar til apríl en það var um miðjan mars sem flugumferð stöðvaðist að mestu leyti. Af þeim sökum er niðurstaðan hjá SAS meira lituð af heimsfaraldrinum.

Tekjur SAS á þessu tímabili, febrúar til apríl, lækkuðu um helming frá sama tíma í fyrra. „SAS hefur, líkt og mörg önnur flugfélög, háan fastan kostnað og þess vegna hafa kostnaðarlækkanir því miður ekki náð að vega upp á móti hinni gríðarlegu minnkun tekna,“ segir Rickard Gustafson, forstjóri SAS í tilkynningu nú í morgun. Hann gerir ráð fyrir að lausafjárstaða félagsins versni um sjö til tíu milljarða króna (500-700 sænskra) á mánuði fram í lok október þegar reikningsárið hjá SAS endar.

Tekjutapið hjá Norwegian var minna en hjá helsta keppinautunum eða um fimmtungur enda var apríl ekki hluti af uppgjöri norska félagsins. Stjórnendur Norwegian ráð fyrir að félagið þurfi á bilinu 4 til 7 milljarða króna (300-500 milljónir norskra) fram í lok fyrsta fjórðungs næsta árs samkvæmt því áður hefur verið gefið út í tengslum við endurskipulagningu flugfélagsins.

Norwegian tókst nú í byrjun mánaðar að uppfylla þær kröfur sem norska stjórnvöld settu fyrir því að veita félaginu lán. Hluti af þeirri endurskipulagningu var að kröfuhafar og flugvélaleigur breyttu skuldum í hlutafé. Eldri hluthafar héldu aðeins eftir um fimm prósentum í félaginu.

Norwegian hefur farið illa út úr viðskiptum sínum við Boeing. Þannig hafa Boeing Dreamliner þotur félagsins reynst þungar í rekstri vegna tíðra bilana á hreyflum. Norwegian hafi einnig lagt traust sitt á Boeing MAX þoturnar en líkt og fjármálastjóri Norwegian benti á nú í vor þá ætti félagið að geta losnað undan samningum um kaup á MAX þotum þar sem afhendingin hefur dregist um meira en eitt ár.

Norwegian hefur þó ekki ennþá sótt bætur til Boeing vegna MAX þotanna en það hefur Icelandair hins vegar gert. Ekki liggur fyrir hvort þar með hafi íslenska félagið samið sig frá þessum rétti sem Norwegian telur sig hafa.

Hjá SAS hafa stjórnendur aftur á móti endurnýjað flota félagsins með nýjum flugvélum frá Airbus. Eldri flugvélar hafa því verið seldar og hefur rekstur félagsins gengið vel síðustu ár líkt og rakið var nýlega hjá á síðum Túrista.

Sænska og danska ríkið fara með um þrjátíu prósent hlutafjár í SAS og hafa stærstu einkafjárfestar félagsins kallað eftir því að stjórnvöld í þessum löndum auki hlutafé félaganna umtalsvert.