Telur að önnur flug­félög myndu leysa Icelandair af hólmi

Það gæti tekið lengri tíma fyrir hagkerfið að taka við sér aftur ef Icelandair yrði gjaldþrota að mati seðlabankastjóra. Hann segist þó ekki sjá svo mikil áhrif til skemmri tíma.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Mynd: Seðlabanki Íslands

Hlut­hafar Icelandair Group eiga að koma saman seinnipartinn á morgun og greiða atkvæði um að auka hlutafé félagsins í þeim tilgangi að bæta úr slæmri lausa­fjár­stöðu. Stjórn­endur Icelandair höfðu sett sér það markmið að ná lang­tíma kjara­samn­ingum við flug­stéttir fyrir fundinn en Flug­freyju­félag Íslands hafnaði í gær svokölluðu loka­til­boði flug­fé­lagsins.

Ásgeir Jónsson, seðla­banka­stjóri, var spurður út í þessa tvísýnu stöðu Icelandair í Kast­ljósi RÚV í gærkvöld og sagðist hann ekki telja að gjald­þrot flug­fé­lagsins hefði mikil áhrif til skemmri tíma. Vísaði Ásgeir þar til þess að spár bankans geri ráð fyrir því að hingað komi ekki margir ferða­menn það sem eftir lifir árs.

„Þegar litið er fram munu koma önnur flug­félög. Þessi þekking er til staðar í landinu,” sagði Ásgeir. Hann bætti við að með falli Icelandair gæti hagkerfið orðið seinna að taka við sér eftir COVID-19 farald­urinn.

Segja má að þessi greining seðla­ban­kas­stjóra sé í takt við það sem Harpa Jóns­dóttir, þáver­andi fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­stöð­ug­leika­sviðs bankans, sagði í viðtali við Viðskipta­blaðið fyrir tveimur árum síðan. Þá var umræðan um mögu­legt greiðslu­fall Icle­andair og WOW air að komast í hámæli. Full­yrti Harpa að ef eftir­spurn væri til staðar þá væri alltaf hægt að halda úti flug­leiðum hingað með hagnaði og því myndu aðrir grípa boltann.

Það kom þó í ljós að það skarð sem WOW air skyldi eftir sig var að mestu ófyllt ári eftir gjald­þrot félagsins. Ástæðan var líklegast sú að WOW air gerði út á tengifar­þega að miklu leyti og það var því eftir litlu að slægjast fyrir erlend flug­félög.

Þess má geta að Harpa er í dag fram­kvæmda­stjóri LSR – Lífeyr­is­sjóðs starfs­manna ríkisins sem er níundi stærsti hlut­hafinn í Icelandair Group með um tvö prósent hlut.


Kæri lesandi, nú á tímum Covid-19 þá stendur Túristi vaktina. Lest­urinn á síðuna hefur aukist gríð­ar­lega en auglýs­inga­tekj­urnar lækkað mjög hratt. Af þeim sökum bendi ég tryggum lesendum á að hægt er að leggja útgáf­unni lið með frjálsum fram­lögum (sjá hér).
Með fyrir­fram þökk,
Kristján Sigur­jónsson