Þegar ríkisbankarnir tóku Icelandair yfir

Hluthafar Icelandair Group koma saman seinnipartinn í dag og greiða atkvæði um að auka hlutafé félagsins. Meðal stærstu kröfuhafa eru ríkisbankarnir tveir en þeir leystu einmitt til sín meirihluta í félaginu fyrir ellefu árum síðan.

Mynd: Icelandair

Það er viðbúið hluthafar Icelandair veiti heimild til að auka hlutafé í félaginu á hluthafafundi seinnipartinn í dag. Markmiðið er að afla samsteypunni um þrjátíu milljarða króna en kröfuhöfum býðst jafnframt að breyta skuldum í eigið fé.

Meðal stærstu kröfuhafa eru ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbanki. Sá fyrrnefndi hefur lengi verið viðskiptabanki Icelandair Group og Landsbankinn lánaði fyrirtækinu 80 milljónir dollara (um 11,5 milljarða króna) í mars í fyrra gegn veði í tíu þotum.

Það voru einmitt þessir tveir bankar sem fengu Icelandair í fangið eftir hrun. Vorið 2009 leysti Íslandsbanki þannig til sín fjörutíu og tvö prósent hlutafjár í félaginu en eigendur bréfanna voru fjárfestingafélögin Máttur og Naust.

Helstu eigendur Máttar voru bræðurnir Kars og Steingrímur Wernersynir. Síðarnefnda félagið var í eigu Engeyjarættarinnar og fóru aðrir bræður, þeir Einar og Benedikt Sveinssynir, fyrir því. Þeir áttu einnig hlut í Mætti. Skuldir þessara tveggja félaga voru afskrifaðar að töluverðu leiti eins og rakið var í umfjöllun Stundarinnar um Glitnisskjölin.

Landsbankinn tók svo yfir fjórðunghlut Langflugs í Icelandair en það félag var að stærstum hluta í eigu Finn Ingólfssonar, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins. Langflug fór skömmu síðar í þrot og tapaði Landsbankinn þar um átta milljörðum og Íslandsbanki fimm.

Endurskipulagning á rekstri Icelandair hófst svo í kjölfar yfirtökunnar en þegar þarna var komið við sögu átti Icelandair meðal annars stóran hlut í flugfélögum í Tékklandi og Lettlandi. Einnig hafði fyrrum móðurfélag Icelandair, FL Group, skuldbundið félagið fyrir kaupum á Dreamliner þotum frá Boeing. Rétturinn á þeim var svo seldur til Norwegian sem nýtti þær þotur til að hefja flug yfir Norður-Atlantshafið í harðri samkeppni við Icelandair.

Í júní árið 2010, rúmu ári eftir að ríkisbankarnir tveir tóku yfir tvo þriðju hlutafjár í Icelandair, þá keypti Framtakssjóður Íslands, sem var í eigu lífeyrissjóðanna, 30 prósent hlut í Icelandair. Hálfu ári síðar var flugfélagið á ný skráð í íslensku kauphöllina.

Þá tóku við sjö ár í röð þar sem félagið skilaði góðri afkomu. Svo fór að halla undan fæti og tapaði Icelandair samsteypan samtals fjórtán milljörðum króna árin 2018 og 2019. Þau ár voru þó almennt góð í flugrekstri.