Þegar ríkis­bank­arnir tóku Icelandair yfir

Hluthafar Icelandair Group koma saman seinnipartinn í dag og greiða atkvæði um að auka hlutafé félagsins. Meðal stærstu kröfuhafa eru ríkisbankarnir tveir en þeir leystu einmitt til sín meirihluta í félaginu fyrir ellefu árum síðan.

Mynd: Icelandair

Það er viðbúið hlut­hafar Icelandair veiti heimild til að auka hlutafé í félaginu á hlut­hafa­fundi seinnipartinn í dag. Mark­miðið er að afla samsteyp­unni um þrjátíu millj­arða króna en kröfu­höfum býðst jafn­framt að breyta skuldum í eigið fé.

Meðal stærstu kröfu­hafa eru ríkis­bank­arnir tveir, Íslands­banki og Lands­banki. Sá fyrr­nefndi hefur lengi verið viðskipta­banki Icelandair Group og Lands­bankinn lánaði fyrir­tækinu 80 millj­ónir dollara (um 11,5 millj­arða króna) í mars í fyrra gegn veði í tíu þotum.

Það voru einmitt þessir tveir bankar sem fengu Icelandair í fangið eftir hrun. Vorið 2009 leysti Íslands­banki þannig til sín fjörutíu og tvö prósent hluta­fjár í félaginu en eigendur bréf­anna voru fjár­fest­inga­fé­lögin Máttur og Naust.

Helstu eigendur Máttar voru bræð­urnir Kars og Stein­grímur Werner­synir. Síðar­nefnda félagið var í eigu Engeyjarætt­ar­innar og fóru aðrir bræður, þeir Einar og Bene­dikt Sveins­synir, fyrir því. Þeir áttu einnig hlut í Mætti. Skuldir þessara tveggja félaga voru afskrif­aðar að tölu­verðu leiti eins og rakið var í umfjöllun Stund­ar­innar um Glitn­is­skjölin.

Lands­bankinn tók svo yfir fjórð­ung­hlut Lang­flugs í Icelandair en það félag var að stærstum hluta í eigu Finn Ingólfs­sonar, fyrrum ráðherra Fram­sókn­ar­flokksins. Lang­flug fór skömmu síðar í þrot og tapaði Lands­bankinn þar um átta millj­örðum og Íslands­banki fimm.

Endur­skipu­lagning á rekstri Icelandair hófst svo í kjölfar yfir­tök­unnar en þegar þarna var komið við sögu átti Icelandair meðal annars stóran hlut í flug­fé­lögum í Tékklandi og Lett­landi. Einnig hafði fyrrum móður­félag Icelandair, FL Group, skuld­bundið félagið fyrir kaupum á Dreaml­iner þotum frá Boeing. Rétt­urinn á þeim var svo seldur til Norwegian sem nýtti þær þotur til að hefja flug yfir Norður-Atlants­hafið í harðri samkeppni við Icelandair.

Í júní árið 2010, rúmu ári eftir að ríkis­bank­arnir tveir tóku yfir tvo þriðju hluta­fjár í Icelandair, þá keypti Fram­taks­sjóður Íslands, sem var í eigu lífeyr­is­sjóð­anna, 30 prósent hlut í Icelandair. Hálfu ári síðar var flug­fé­lagið á ný skráð í íslensku kaup­höllina.

Þá tóku við sjö ár í röð þar sem félagið skilaði góðri afkomu. Svo fór að halla undan fæti og tapaði Icelandair samsteypan samtals fjórtán millj­örðum króna árin 2018 og 2019. Þau ár voru þó almennt góð í flugrekstri.