Tryggvi Þór er nýr stjórnarformaður Icelandair hótelanna

Icelandair Group á nú aðeins fjórðungs hlut í Icelandair hótelunum. Þetta næst stærsta hótelfyrirtæki landsins hefur því fengið nýja þriggja manna stjórn.

Frá Reykjavík Konsúlat hótelinu í Hafnarstræti sem er hluti af Curio by Hilton keðjunni. Mynd: Icelandair hótelin

Það var í byrjun apríl sem malasíska fjárfestingafélagið Berjaya Land Ber­had gerði upp kaup sín á 75 prósent hlut í Icelandair hótelunum. Upphaflega stóð til að lokagreiðslan yrði ynnt af hendi í lok þessa mánaðar en uppgörinu var flýtt vegna ástandsins sem nú ríkir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Fékk kaupandinn afslátt upp á nærri 1,5 milljarð króna vegna þessa.

Ný stjórn yfir Icelandair hótelunum hefur nú verið skipuð og er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum forstjóri Aska Capital, nýr stjórnarformaður. Tryggi Þór hefur verið tengiliður malasíska fjárfestingafélagsins í viðskiptum þess hér á landi.

Foo Toon Kee, framvæmdastjóri Berjaya hotels, er annar fulltrúi kaupandans í stjórninni og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, situr þar fyrir hönd samsteypunnar. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, er varamaður í stjórn en ætlunin er að skipa hótelfyrirtækinu fimm manna aðalstjórn innan tíðar.

Auk þess að kaupa hlutinn í Icelandair hótelunum þá festi Berjaya Land Ber­had einnig kaup á 2.600 fermetra vöruskemmu við Reykjavíkurhöfn í fyrra. Þar eru áform um að opna fyrsta Four season hótelið á Norðurlöndum en Berjaya Hotels, systurfélag Berjaya Land Ber­had, rekur tvo þess háttar gististaði í Japan í dag. Bygging nýs hótels við Reykjavíkurhöfn kallar aftur á móti á breytt skipulag í miðborginni.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.