Vilja gjarnan fá íslenska túrista til Portúgal í sumar

Þó eiginleg landamæri Portúgal verði ekki opnuð á næstunni þá munu ferðamenn engu að síður geta flogið til landsins frá og með miðjum júní.

Baðstrendur í Portúgal opna á ný þann 6. júní. Mynd: Dan Gold - Unsplash

Veitingastaðir, söfn, golfvellir og sérverslanir hafa verið opnaðar á ný í Portúgal. Frá og með sjötta júní verður fólki svo hleyft út á baðstrandir landsins. Á sama tíma binda yfirvöld í landinu vonir við að ferðamenn mæti á svæðið í auknum mæli.

Íslendingar eru sérstaklega velkomnir segir Ana Carreira, talsmaður ferðamálaráðs Portúgal, í samtali við Túrista. „Árangur Íslands í baráttunni við kórónaveirunna hefur verið framúrskarandi. Við horfum því til þess að fá ferðamenn þaðan og vonandi batna flugsamgöngur milli landanna tveggja.“

Við komuna til Portúgal verða ferðamenn að aðeins að framvísa neikvæðum niðurstöðum við Covid-19 ef ferðinni er heitið til Azor eyja eða hluta af Madeira. Þess þarf ekki ef ætlunin er aðeins að dvelja á meginlandi Portúgal.

Til að tryggja öryggi erlendra gesta þá hefur ferðamálaráð Portúgal sett á laggirnar vottunarferli sem kallast „Clean & Safe“. Þá vottun fá þau fyrirtæki sem sýna fram á að þau uppfylli kröfur um sótthreinsun og hreinlæti. Fimm þúsund fyrirtæki hafa nú þegar fengið vottunina og gildir hún í eitt ár.

Ekkert áætlunarflug hefur verið í boði milli Íslands og Portúgal og ferðir íslenskra ferðaskrifstofa þangað takmarkast nær eingöngu við sérferðir til Lissabon.