Vilja gjarnan fá íslenska túrista til Portúgal í sumar

Þó eiginleg landamæri Portúgal verði ekki opnuð á næstunni þá munu ferðamenn engu að síður geta flogið til landsins frá og með miðjum júní.

Baðstrendur í Portúgal opna á ný þann 6. júní. Mynd: Dan Gold - Unsplash

Veit­inga­staðir, söfn, golf­vellir og sérversl­anir hafa verið opnaðar á ný í Portúgal. Frá og með sjötta júní verður fólki svo hleyft út á baðstrandir landsins. Á sama tíma binda yfir­völd í landinu vonir við að ferða­menn mæti á svæðið í auknum mæli.

Íslend­ingar eru sérstak­lega velkomnir segir Ana Carreira, tals­maður ferða­mála­ráðs Portúgal, í samtali við Túrista. „Árangur Íslands í barátt­unni við kóróna­veirunna hefur verið framúrsk­ar­andi. Við horfum því til þess að fá ferða­menn þaðan og vonandi batna flug­sam­göngur milli land­anna tveggja.”

Við komuna til Portúgal verða ferða­menn að aðeins að fram­vísa neikvæðum niður­stöðum við Covid-19 ef ferð­inni er heitið til Azor eyja eða hluta af Madeira. Þess þarf ekki ef ætlunin er aðeins að dvelja á megin­landi Portúgal.

Til að tryggja öryggi erlendra gesta þá hefur ferða­málaráð Portúgal sett á lagg­irnar vott­un­ar­ferli sem kallast “Clean & Safe”. Þá vottun fá þau fyrir­tæki sem sýna fram á að þau uppfylli kröfur um sótt­hreinsun og hrein­læti. Fimm þúsund fyrir­tæki hafa nú þegar fengið vott­unina og gildir hún í eitt ár.

Ekkert áætl­un­ar­flug hefur verið í boði milli Íslands og Portúgal og ferðir íslenskra ferða­skrif­stofa þangað takmarkast nær eingöngu við sérferðir til Lissabon.