13 prósent þjóðarinnar stefnir til útlanda í sumar

Margir ætla að bíða með ferðalög út í heim fram á næsta ár en engu að síður setja margir stefnuna út fyrir landsteinana nú í sumar og ennþá fleiri í haust og í vetrarbyrjun.

Í byrjun þarnæstu viku fjölgar áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli töluvert. Mynd: Isavia

Nú er rétt rúm vika í enduropnun landamæra fjölda Evrópuríkja og þar á meðal Íslands. Á sama tíma kemst farþegaflug til og frá Keflavíkurflugvelli í hefðbundnari skorður og þannig munu þotur Icelandair fljúga fjörutíu og eina ferða í viku hverri til evrópskra áfangastaða. Flestar ferðirnar verða til Kaupmannahafnar eða níu í hverri viku. Auk þess munu flugfélög eins og SAS, Transavia og Wizz Air taka upp þráðinn í Íslandsflugi.

Það verður þó margt öðruvísi við ferðalög milli landa nú í sumar vegna kórónaveirunnar. Engu að síður segjast þrettán prósent Íslendinga ætla út nú í sumar og um fjórðungur þjóðarinnar segir líklegt að haldið verði út í heim á tímabilinu september til desember í ár.

Á hinn bóginn segir helmingurinn að utanlandsferð verði í fyrsta lagi á dagskrá á næsta ári. Um tíund svarenda ætlar að bíða ennþá lengur.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar á vegum EMC rannsókna sem framkvæmd var síðustu vikuna í maí. Alls tóku 718 svarendur þátt í rannsókninni og endurspeglar þýðið Íslendinga með tilliti til kyns, aldurs og búsetu.

Áhuginn á ferðum út í heim í ár er mestur meðal eldra fólks, íbúa höfuðborgarsvæðisins og tekjuhærri hópa. Hér má kynna sér niðurstöður könnunarinnar nánar.

Þess ber að geta að nú fyrir helgi var tilkynnt að erlendir ferðamenn og Íslendingar sem kom til landsins verða sjálfir að borga fimmtán þúsund krónur fyrir Covid-19 próf.